Showing posts with label hekl. Show all posts
Showing posts with label hekl. Show all posts

Sunday, March 9, 2014

mörg mörg verk í vinnslu




Ég er með ansi mörg verkefni á prjónunum núna og það er eiginlega ekki tilviljun því ég fékk um daginn svo svakalega löngun til að vera með margt í gangi í einu og geta skipt á milli að ég ákvað að láta það bara eftir mér. Það má! Hér að ofan sjást annars vegar Belluvettlingar sem ég er að byrja á (ísl. þýðing af uppskriftinni hér, mjög þakklát fyirr hana :) úr 5 þráða færeysku Snældugarni og hins vegar peysan Strýta sem ég er að prjóna á Odd nema hvað ég breyti uppskriftinni aðeins eftir hentugleika; sleppi munstri á ermum og bol, hef hana rennda og með hettu. Svo fer ég upp um hálfa prjónastærð því hún er líka úr 5 þráða Snældu. Það garn hefur lengi verið á óskalistanum og veldur engum vonbrigðum. Svakalega mjúkt og prjónast fallega.

Vettlingarnir eru fyrsta tilraun mín í kaðlaprjóni og það er ekkert eins flókið og ég hélt að það væri heldur bara fáránlega skemmtilegt. Kemur reyndar ekki á óvart þar sem ég elska útprjón og þetta er nú dálítið sama pælingin. Ég ætla að reyna að vera fljót að klára þá því þeir eru hluti af prjóna-meira-á-sjálfa-mig prjónaáramótaheitinu og gömlu vettlingarnir mínir eru að detta í sundur. Sem kemur sér ekki vel í snjónum um þessar mundir. Hvað rekur meira á eftir manni í vettlingaprjóni en blautur snjór og götóttar vettlingalufsur? Ekkert. (Nema kannski að maður ætti enga vettlinga fyrir).




Ég er líka að vinna í þessu fallega teppi sem langamma mín og nafna hefur verið að hekla fyrir Ósk langalangömmubarn. Mér finnst handverkið hennar ömmu svo fallegt og litirnir sérstaklega flottir. Því miður er hún orðin frekar slæm í höndunum og treystir sér ekki til að klára og ég tók það glöð að mér. Eins og sést á myndinni á bara eftir að festa síðustu dúllurnar við og gera kant. Ég er montin af að vera treyst fyrir fráganginum, mér finnst líka alltaf gaman að hekla teppi og þetta er engin undantekning. 





Aðalverkefnið þessa dagana er samt Morganite peysan mín sem ég er komin ansi langt með, búin með bol og næstum báðar ermar. Ég er komin með leið á að vera með hana á hliðarlínunni og farið að langa að klæðast henni, þannig að ég lofaði sjálfri mér að klára þetta í mars. Sjáum hvort það tekst ekki örugglega! Svo er ég með tvö leyniverkefni í startholunum líka sem ég er ekki enn tilbúin að deila, t.d. eina uppskrift sem býr í kollinum en verður vonandi sett á blað/í garn einhverntíma.

Þangað til næst - bestu prjónakveðjur! 

Monday, February 10, 2014

mánudagur: búið og gert!


Granny square afgangateppi til góðs
Garn: Allskonar afgangar, enginn lopi þó
Nál: nr. 4,5
Uppskrift: Ömmuferningur úr Þóru heklbók og dúllur settar saman í síðstu umferð, einnig kennt í Þóru

Ég ákvað á sunnudaginn fyrir rúmri viku að vera með í aukaáskorun Hnoðra og hnykla, þeirri sem snerist um að nýta garnafgangana til góðs, og dró fram ýmsa hnykla sem ég hef verið að vandræðast með auk nokkurra dúll-na (haha) sem hafa orðið afgangs í öðrum teppum. Svo snaraði ég bara fram einu teppi, að vísu voða litlu, á fimm dögum! Mér finnst það hafa tekist prýðilega og þótt það vinni kannski engar teppafegurðarsamkeppnir þá finnst mér einhver sjarmi yfir því. Satt að segja finnst mér það svo krúttlegt að nú langar mig bara að láta verða af því að byrja á einu svona langtímaafgangaheklteppi fyrir mitt eigið heimili. Í öllu falli vona ég að þetta litla teppi hlýji og gleðji einhvern sem á þarf að halda. 



 Bóndadagsvettlingar
Garn: Álafosslopi
Prjónar: nr. 4,5 og 6
Uppskrift: Tveggja þumla karlmannsvettlingar eftir Kristínu Harðardóttur

Þessi síðbúna bóndadagsgjöf var svo kláruð um helgina. Oddur er glaður með þá og ég er glöð með þá og svei mér þá ef vettlingarnir eru ekki bara svolítið glaðir með sjálfa sig. Ég breytti mynstrinu aðeins, langaðI að hafa það svona þykkt. Svo hafði ég bara tvo þumla alls... fannst fjórir eitthvað fullvel í lagt að þessu sinni. Uppskriftina er hægt að kaupa staka í Handprjónasambandinu fyrir slikk. 

Annars hef ég tekið eftir auknum fjölda heimsókna upp á síðkastið og þakka kærlega fyrir innlitið! 
Bestu kveðjur, sæl að sinni :)

Monday, January 20, 2014

mánudagur: búið og gert!

Ljúf helgi að baki, ég fór til dæmis aðeins í Litlu Prjónabúðina þar sem ég prjónaði með Lindu vinkonu minni, kynntist mörgum skemmtilegum prjónurum/heklurum og rakst á ýmsa kunningja sem gaman var að spjalla við. Ég byrjaði líka að prjóna fyrstu vísbendinguna í leynisamprjóni Isoldu Teague, segi ykkur meira frá því bráðum, og tók til í geymslunni minni sem var mjög þarft verk. Verðlaun fyrir að nenna því voru að sjálfsögðu ísferð í Valdís og svo að geta opnað geymsluna á þriggja mínútna fresti í dag til að dást að allri reiðunni og skipulaginu. Ahhh. 


Needle: 3.5 mm
Size: 6 months

Ég kláraði plómulitu peysuna handa Ósk í síðustu viku og finnst hún fara henni svakalega vel, er það annars bara ég eða bliknar blessuð peysan ekki alveg í návist þessarar fallegu stelpu? 

Varð nú svolítið leið á henni (peysunni, erfitt að fá leið á Ósk) þar sem þetta var bara garðaprjón eftir annars mjög skemmtilega útaukningu í laskakaðlinum. En ég setti undir mig hausinn og er mjög fegin því mikið finnst mér hún fín. Tölurnar fengust í Litlu Prjónabúðinni og setja alveg punktinn yfir i-ið, en peysan er ennþá það stór að það þarf að bretta upp ermar þannig að hún á eftir að duga lengi.  Ég studdist við nýju Prjónabiblíuna til að finna fallega leið til að sauma saman undir ermum og er mjög ánægð með útkomuna. Batnandi konu er best að lifa og ég ÆTLA að verða snillingur í fallegum frágangi. 





Henti líka í eitt afgangaverkefni fyrir garnbanaáskorunina góðu en fyrir valinu urðu heklaðir slefmekkir þar sem Ósk er að fá fyrstu tönnina og slefar alveg eins og óð kona. Liggur við að maður sé að hekla undan straumnum! 


Pattern: Kría eftir Tinnu Þórudóttur Þorvaldsdóttur, með smá breytingum sem ég sá á facebooksíðu hennar einhverntímann fyrir jól
Yarn: Fashion IRO dk og ýmsir afgangar
Hook: 2.5 mm



Lykillinn er að hekla frekar þétt og hafa bara 2 ll í upphafi hverrar umferðar í stað 3 ll eins og segir í sjaluppskriftinni. Ég er mjög ánægð með hvernig þetta tókst til hjá mér og gæti alveg hugsað mér að henda stundum í svona smekki til dæmis í sængurgjafir og svoleiðis. Annars er ég að pæla í að taka líka þátt í aukaáskoruninni sem er fyrir góðan málstað, endilega kíkið á það ef þið getið! Meira um það hér. Ég á alveg fullt af kambgarni ennþá sem væri fullkomið í fallegt og hlýtt teppi fyrir þá sem ekki eru jafn heppnir og litla ég (en mikið vildi ég að allir í heiminum væru jafn heppnir, ég segi það satt!).

Þar til næst - hafið það gott!

Monday, January 13, 2014

prjónaáramótaheit


Ég þarf að leiðrétta fullyrðingu mína héðan úr síðustu færslu því ég náði reyndar að taka mynd af einni jólagjöf, það var þessi glaðlega hjálmhúfa sem ég prjónaði á lítinn frænda í Mývatnssveit. Hann kom með mömmu sinni í heimsókn til mín á gamlársdag og þá fékk ég að taka mynd af honum með húfuna. Hann er svo kátur og krúttlegur að mér finnst þessi mynd bara algjör gleðisprengja! En þetta var sem sagt afgangaverkefnið í desember því þessi húfa varð til úr kambgarnsafgöngum. Ég heklaði líka eina hippalega hexagonpeysu úr afgöngum en hún fór algjörlega óljósmynduð í sinn pakka.


Og áfram heldur áskorunarhandavinnan því í janúar ætla ég að hekla/prjóna slefsmekki fyrir Ósk (ekki veitir af, úff) úr ýmsum bómullarafgöngum og einni dokku af þessu skemmtilega IRO bómullargarni, lengst til hægri, sem ég keypti í Litlu Prjónabúðinni fyrir jól. Ég er nú þegar búin með næstum þrjá Kríuunga úr þessu garni og það er rosalega flott hvernig litbrigðin koma fram. Myndir af því seinna!


Ég strengdi að vanda prjónaáramótaheit, sem er einfaldlega að gera meira á sjálfa mig árið 2014. Hef hingað til verið hrikalega örlát í garð annarra í handavinnunni og er einhvernveginn alltaf að prjóna og hekla á annað fólk þannig að nú verður gert átak í þeim málum. Fyrsta verkefnið er jólagjöf frá foreldrum mínum en mamma, þekkjandi prjónaóða dóttur sína, gaf mér kaupferð í Litlu Prjónabúðina að eigin vali í jólagjöf. Við fórum saman og þetta varð yndisleg heimsókn þar sem ég endaði á að kaupa mér 10 dokkur af Geilsk hamp-ullarblöndu (garn sem kemur skemmtilega á óvart!) og Pompom blað síðasta hausts. Er núna að prjóna mér peysuna Morganite og get auðvitað ekki beðið eftir lokaafurðinni. Þessi blái litur er geggjaður og ekki líkur neinu sem ég á fyrir í fataskápnum.

Annars er ég bara að leggja lokahönd á frágang í plómulitu peysunni hennar Óskar (sem er reyndar eggaldinlituð ef miðað er við upplýsingar frá garnframleiðandanum) og með eitt eða tvö pör af vettlingum í bígerð. Gangi öllum vel með sitt og sína :)

Tuesday, December 10, 2013

bara smá




Ég var nú ekki lengi að svíkja loforðið um aukna bloggvirkni en það á sér reyndar alveg eðlilegar skýringar. Við mægður lentum í brjóstagjafaveseni sem átti tíma minn og athygli svotil óskipta í næstum hálfan mánuð og ég er bara fyrst núna farin að hugsa um eitthvað annað (afsakanir, afsakanir...) en það þýðir jú að loksins get ég dregið fram myndavélina og tölvuna af heilum hug. Mitt í öllu mjólkurstandinu snaraði ég fram fjórum litlum jólarósum til að skreyta aðventukransinn með, ég ákvað að nenna ekki að stífa þær en uppskriftin kemur úr Þóru - heklbók og er þar sem bókamerki. Mjög ánægð með þennan einfalda krans. Þarf samt að passa súper vel að gleyma ekki að slökkva a kertunum því garnið er auðvitað mjög eldfimt. 

Annars eru bara jólagjafir og aftur jólagjafir í vinnslu hérna. Ég gerði mér grein fyrir því að desemberáskorunin mætti ekki ræna dýrmætum jólagjafatíma og því verður verkefnið sett í jólapakka, ætla að hekla sæta hexagonpeysu úr kambgarnsafgöngunum mínum og reyna bara að hafa hana sem litríkasta. Eina verkefnið þessa dagana sem ekki er til jóla er sæta plómupeysan á Ósk sem ég svo píndi sjálfa mig til að setja ofan í skúffu um helgina þegar ég áttaði mig á því að nú eru ekki nema tvær vikur til stefnu...
Ekkert stress. Bara smá. 

Monday, November 25, 2013

í fréttum er þetta helst



Skemmtilegt og einfalt föndur sem sló í gegn hjá unga manninum. Fyrst var var vatnslitað inn í skapalónsteikningar og svo dýrin klippt út og límd á annað blað. 



Systir mín stakk upp á sushigerð á föstudaginn fyrir rúmri viku og ég sló til þrátt fyrir að vera algjör byrjandi sjálf. Hún kenndi mér helstu handtökin og það kom mér á óvart hvað þetta er lítið vesen. Úlfi fannst sushigerðin rosalega spennandi og aðstoðaði heilmikið. Og þó maður geri þetta heima þarf það ekki að vera slappt, allir sem á fengu að bragða voru sammála um að þetta væri engu síðra en á veitingastað! Það besta var að við bjuggum til óheyrilegt magn og því gátum við og kærastarnir borðað okkur algjörlega pakksödd og áttum meira að segja afgang. Nú skil ég bara ekki af hverju ég hafði ekki prófað þetta fyrr... og er byrjuð að plana næsta sushikvöld. 





Eftir veikindin og inniveruna mátti Úlfur loksins fara út um síðustu helgi, allir á heimilinu voru mjög hamingjusamir hvað það varðaði. Við fórum þó hægt af stað og kíktum bara á Kjarvalsstaði á laugardeginum. Þar gat strákurinn hlaupið og ærslast á göngunum (og aðeins í sölunum, úps) á meðan við foreldrarnir kíktum á ljósmyndir Rodchenko og allskonar málverk eftir Kjarval. Mjög skemmtilegar sýningar, mæli með! Í uppáhaldi var þó listasmiðjan sem hefur verið útbúin fyrir krakka en þar er góð aðstaða til að teikna og skoða listaverkabækur. 


Á sunnudeginum var svo í boði að fara út að leika í snjónum. Við notuðum daginn til að taka aðeins til í garðinum, flokka flöskur og dósir, hlúa að pottablómunum okkar og fleira í þeim dúr. Úlfur var alsæll með snjóinn og felldi tár þegar hann þiðnaði tveimur dögum síðar. 



Ég er búin að eiga dálítið strembnar prjónavikur upp á síðkastið, hef t.d. mikið þurft að rekja upp og ekki alltaf verið ánægð með verkefnin mín. Ég setti mér líka dálítið margar jólagjafir fyrir og var komin í stress þannig að ég helmingaði þá áætlun bara - ekkert gaman að gefa heimatilbúnar gjafir ef þær eru ekki búnar til af sannri gleði! En nú virðist prjónalukkan aftur vera orðin mér hliðholl og ég hef verið að klára allskonar skemmtileg verkefni - svo ekki sé minnst á að byrja á allskonar skemmtilegu. Ég heklaði þessa peysu úr lamaull frá Strikkebogen sem fæst í Litlu Prjónabúðinni og get ekki annað en gefið því garni toppeinkunn, alveg dásamlega mjúkt og meðfærilegt og svo eru litirnir mér að skapi. Uppskriftin er í Maríu heklbók og heitir Úlfagull (ég gat ekki annað en gert hana á Úlfagullið mitt!) en ég hef aldrei heklað neitt svona flókið áður og að tala um að þetta hafi verið erfitt lærdómsríkt væri understatement, svo ég sletti. Útkoman er sem betur fer bara nokkuð góð þrátt fyrir svolítið ljót samskeyti (sjást ekki á mynd) og það að peysan er svona tveimur stærðum of stór á barnið (redda því með teygjutvinna í hálsinn og uppbrettum ermum). Að öðru leyti er ég himinlifandi með hana og er strax búin að ákveða að gera aðra (minni). 



Svo var Oddur að biðja um lopavettlinga og þá fannst mér bjóðast fullkomið tækifæri til að nýta plötulopaafganga í verkið. Ég er nú þegar búin með ljótgarnsáskorun Hnoðra og hnykla en þar sem það var í raun aukaáskorun og enn nóg eftir af mánuðinum (og garnbirgðunum, ehemm), henti ég í risastóra lopavettlinga á manninn. Ég prjónaði þá bara upp úr mér og þeir urðu svolítið stórir, en þegar ég hafði orð á því að rekja upp og minnka aðeins tók Oddur það ekki í mál og vildi bara hafa þá svona gerðarlega. Mér finnst þeir bara sætir þegar allt kemur til alls og eitthvað krúttlega jólasveinalegt við litina og stærðina.




Nú eru á prjónunum tvennar jólagjafir sem eðli málsins samkvæmt er ekki sniðugt að sýna hér enn sem komið er. Til þess að eiga að minnsta kosti til eitt verkefni sem ekki er leyndó og þolir að vera sinnt á almannafæri fitjaði ég upp á þessari ofureinföldu en ofurfínu peysu úr Babystrik pa pinde 3. Garnið er Gepard CottonWool sem ég keypti á útsölu í Litlu Prjónabúðinni á föstudaginn. Mér finnst þessi plómulitur æðislegur og hlakka til að klæða Ósk í nýja peysu, vonandi sem fyrst. 

Ekki fleira í fréttum að sinni - bestu kveðjur til allra :)

Sunday, September 22, 2013

þessi líka fíni trefill og áskorun næsta mánaðar



Mér tókst það! 
Áskorun septembermánaðar er afgreidd - þessi líka fíni trefill sem er mjög hlýr og mjúkur. Uppskriftin var Stuðlaberg úr Þóru - heklbók og ég kláraði allt garnið, hvern einasta sentimetra. Þetta var nú reyndar alveg hrikalega auðvelt og fljótlegt verkefni en mér finnst það ekki koma niður á afrakstrinum og hef ekki notað neitt annað um hálsinn síðan ég kláraði. Ég er ekkert rosalega dugleg að prjóna og hekla handa sjálfri mér en mætti kannski vera duglegri miðað við hvað mér finnst gaman að ganga í eigin framleiðslu.


Ég stefni á örlítið flóknara verkefni fyrir októberáskorunina en það eru sætir barnavettlingar sem hún Hildur Ýr, önnur áskorunarkvenna á Hnoðrum og hnyklum, setti saman uppskrift að og kallast þeir Litlar stjörnur. Mjög fallegt munstur og sannkallað afgangaverkefni. Ég á einmit fullt af fínu kambgarni og ætla að nota tvo græna, einn bleikan og einn rauðan lit. Þar með er það opinbert og megi októberprjónið (bráðum) hefjast!

Saturday, August 31, 2013

skemmtileg áskorun


Nú er í gangi ótrúlega sniðug áskorun sem þær stöllur á handavinnublogginu Hnoðrar og hnyklar standa fyrir og ég stefni á að taka þátt í henni til fulls. Áskorunin snýst um að vinna aðeins með garn sem maður á fyrir, þ.e. garnbirgðir og afganga og útbúa úr þeim eitt verkefni á mánuði næstu 12 mánuði. Verkefnið þarf að ákveða fyrir fyrsta hvers mánaðar og klára fyrir síðasta dag þess mánaðar (ef ég skil reglurnar rétt) og það er stranglega bannað að kaupa nýtt garn í verkefnin - bara nota það sem þegar er til. Þar sem ég er ALLTAF að reyna að grynnka á garnskúffunni minni er þetta tilvalið fyrir mig, svo ekki sé minnst á hvað ég hef gaman af áskorunum og keppnum! Endilega takið þátt, hér er hægt að kynna sér fyrirkomulagið betur og hér eru reglurnar nákvæmlega útlistaðar

Fyrsta áskorunin - september 2013 - er ekki sérlega flókið verkefni en það er nú með ráðum gert vegna þess að ég hyggst sinna ungbarninu meira en handavinnunni (allavega svona fyrstu vikurnar! haha) og vil því ekki ætla mér um of. Þetta Dale þykka ullargarn hefur setið í  garnskúffunni í svona tvö ár og starað á mig en ég hef hingað til ekki getað látið mér detta neitt gáfulegt í hug að gera við það. Þar til nú: Ég ætla að hekla trefilinn Stuðlaberg úr Þóru - heklbók. Það er einfalt og gott verkefni í svæsnustu sængurlegunni og svo verð ég örugglega mjög smart með trefilinn á barnavagnarölti fram eftir hausti. Og þá er bara að byrja!

Wednesday, August 28, 2013

gleðilegar heklfregnir


Margir heklarar fylgjast eflaust með facebook síðu Þóru-heklbókar, þar sem hún Tinna höfundur bókarinnar og handavinnusnilli setur reglulega inn fréttir og tilkynningar ýmiss konar. Ég kíkti inn á síðuna um daginn og sá þá að hún var að auglýsa eftir kríusjölum til að nota i smá hekl-innsetningu í Bókabúð Máls og menningar í tilefni útgáfuhófsins sem þar verður haldið á morgun (sjá myndina hérna undir). Ég á eina dásamlega Kríu sem ég lærði að hekla á námskeiði hjá Tinnu í fyrrahaust og hef notað mikið síðan, þannig að mér fannst auðvitað ekki nema sjálfsagt að taka þátt í þessari frábæru sýningu. Og ég var m.a.s. svo heppin að þegar ég kom við á vinnustofu Tinnu til að afhenda góssið fékk ég að skoða nýju heklbókina Maríu sem er einmitt að koma út. Hún er ÆÐI og ég hef ekki getað hætt að hugsa um allar fínu uppskriftirnar og leiðbeiningarnar í henni. Það er góður heklvetur framundan fyrir þá sem næla sér í eina svona, skal ég segja ykkur. 


Síðar í dag verður svo haldin sérstök sýning, allra fyrsta kynning, á Maríu - heklbók í Litlu prjónabúðinni. Milli 16 og 18 verður hægt að skoða bókina og öll stykkin úr henni auk þess sem Tinna verður á staðnum til að segja frá og vera skemmtileg :) Sjáumst vonandi þar!


Og að lokum - dúlluteppið er loksins tilbúið! Ég hef enn ekki náð góðum myndum af lokaútgáfunni svo þessi instamynd verður að duga í bili. Ég er að setja saman rosalega handavinnufærslu enda mikil færibandaframleiðsla í gangi þessa dagana, þar sem ég er hætt að vinna og að "bíða" eftir barninu. 40 vikur á morgun :)

Wednesday, July 31, 2013

að setja dúllur saman í síðustu umferð





Dúlluteppið góða er alveg að verða tilbúið, sem er líka ágætt því nú er innan við mánuður í settan dag og spenningur hér í fjölskyldunni mjög að aukast. Af biturri reynslu þvoði ég allar lituðu dúllurnar áður en ég hófst handa við að hekla hvítt utan um þær. Ég lenti í því fyrir nokkrum mánuðum að einn liturinn í dúlluteppi sem ég gerði litaði allt hvíta garnið í lokaþvotti þannig að það varð pastelbleikt - mjög svekkjandi þar sem teppið var tilbúið! Ég þurfti að rekja upp allt bleiklitaða garnið og sökudólginn og í hönd fóru margar vikur í að hekla nýja búta og klára teppið upp á nýtt. Á endanum varð það samt fallegra en upphaflega útgáfan, sem betur fer, og ég gat verið svolítið stolt af eigin þvermóðsku og þolinmæði. Ég mun samt aldrei aftur þora að sleppa því að prufuþvo litaða búta ef ég ætla að hafa ljóst garn með í teppinu.

Í þetta sinn ákvað ég að prófa aðferð sem kennd er í Þóru - heklbók þar sem maður festir bútinn í teppið um leið og maður heklar síðustu umferð. Hvílík snilld! Mæli með þessari aðferð! Gengur miklu hraðar og mér sýnist ég líka spara garn. Utan um dúllurnar, sem eru úr kambgarni, nota ég Semilla Fino lífræna ullargarnið úr Litlu prjónabúðinni, aðallega af því ég átti góðan afgang af því en líka af því það er eiginlega uppáhalds, svo mjúkt og meðfærilegt og yndislegt.