Monday, January 13, 2014

prjónaáramótaheit


Ég þarf að leiðrétta fullyrðingu mína héðan úr síðustu færslu því ég náði reyndar að taka mynd af einni jólagjöf, það var þessi glaðlega hjálmhúfa sem ég prjónaði á lítinn frænda í Mývatnssveit. Hann kom með mömmu sinni í heimsókn til mín á gamlársdag og þá fékk ég að taka mynd af honum með húfuna. Hann er svo kátur og krúttlegur að mér finnst þessi mynd bara algjör gleðisprengja! En þetta var sem sagt afgangaverkefnið í desember því þessi húfa varð til úr kambgarnsafgöngum. Ég heklaði líka eina hippalega hexagonpeysu úr afgöngum en hún fór algjörlega óljósmynduð í sinn pakka.


Og áfram heldur áskorunarhandavinnan því í janúar ætla ég að hekla/prjóna slefsmekki fyrir Ósk (ekki veitir af, úff) úr ýmsum bómullarafgöngum og einni dokku af þessu skemmtilega IRO bómullargarni, lengst til hægri, sem ég keypti í Litlu Prjónabúðinni fyrir jól. Ég er nú þegar búin með næstum þrjá Kríuunga úr þessu garni og það er rosalega flott hvernig litbrigðin koma fram. Myndir af því seinna!


Ég strengdi að vanda prjónaáramótaheit, sem er einfaldlega að gera meira á sjálfa mig árið 2014. Hef hingað til verið hrikalega örlát í garð annarra í handavinnunni og er einhvernveginn alltaf að prjóna og hekla á annað fólk þannig að nú verður gert átak í þeim málum. Fyrsta verkefnið er jólagjöf frá foreldrum mínum en mamma, þekkjandi prjónaóða dóttur sína, gaf mér kaupferð í Litlu Prjónabúðina að eigin vali í jólagjöf. Við fórum saman og þetta varð yndisleg heimsókn þar sem ég endaði á að kaupa mér 10 dokkur af Geilsk hamp-ullarblöndu (garn sem kemur skemmtilega á óvart!) og Pompom blað síðasta hausts. Er núna að prjóna mér peysuna Morganite og get auðvitað ekki beðið eftir lokaafurðinni. Þessi blái litur er geggjaður og ekki líkur neinu sem ég á fyrir í fataskápnum.

Annars er ég bara að leggja lokahönd á frágang í plómulitu peysunni hennar Óskar (sem er reyndar eggaldinlituð ef miðað er við upplýsingar frá garnframleiðandanum) og með eitt eða tvö pör af vettlingum í bígerð. Gangi öllum vel með sitt og sína :)

No comments:

Post a Comment