Showing posts with label innblástur. Show all posts
Showing posts with label innblástur. Show all posts

Monday, March 17, 2014

litagleðilöngun













Mig hlýtur að vera farið að lengja eitthvað eftir vorinu, því ég sogast svo að litum þessa dagana. Finnst allt litríkt vera fallegast og best og tek ekki einu sinni eftir garndokkum sem ekki eru í lit. En litir gera jú lífið svo miklu skemmtilegra þannig að ég tek þessum hörguleinkennum náttúrulitanna í marsgrámanum fagnandi og hekla sumargollu á Ósk úr sólgulu garni. Peysan sú er frumraun mín í uppskriftagerð og henni verða gerð góð skil hér síðar. Bestu kveðjur þangað til - vonandi fer nú vorið að sýna sig meir og meir.

Monday, February 17, 2014

einn lítill vorboði

Það var að koma út nýtt Pom Pom blað! Ég skoðaði það í Litlu Prjónabúðinni síðasta fimmtudag og langar svona nokkurn veginn að prjóna hverja einustu flík (úff). Ég er reyndar nú þegar að vinna í Morganite peysunni minni og þó ég sé aaaalveg að verða búin með bolinn býst ég ekki við að fitja upp á neinu af þessu á næstu dögum. En kannski næstu vikum... 








Myndirnar eru fengnar af heimasíðu Pom Pom og eru allar úr nýja blaðinu, þar er líka hægt að kaupa vorblaðið, sem og eldri eintök, og lesa allskonar skemmtilegar prjónafréttir. Varúð - gæti valdið valkvíða!

Tuesday, February 4, 2014

barnaherbergi










Ég er þessa dagana aðeins að breyta í herberginu hans Úlfs og finnst mjög gott að skoða myndir af fallegum barnaherbergjum á netinu til þess að fá innblástur í verkið. Þetta eru svo sem engar rosalegar breytingar sem ég er að gera, aðallega að flokka aðeins leikföngin og fækka þeim. Í svona litlum herbergjum eins og hann á er það alveg nauðsynlegt. Það er líka eins og hann leiki sér meira ef valmöguleikarnir eru ekki of margir og leikföngin flæða ekki úr öllum döllum og hillum. Annars er hans uppáhaldsiðja þessa dagana að hlusta á sögur og tónlist í litla geislaspilaranum sem við gáfum honum í jólagjöf og púsla/perla/byggja legó á meðan. Mjög kósí og alveg hægt að gleyma sér í því með honum!

Reyndar er hann að fá nýtt rúm, er að fara úr barnarúmi í fulla stærð, 200x90, og mig langar svo ógurlega að prjóna rúmteppi sem getur fylgt honum út ævina og gefa honum í 5 ára afmælisgjöf í haust. Ég er mjög hrifin af uppskriftinni af Vetrarbylgjuteppinu frá Pickles, sjá mynd hér fyrir neðan, en mig langar að gera það í grænum tónum. Nú er bara að finna a) garn sem er ódýrt en samt fallegt b) tímann til að prjóna rúmteppi í fullri stærð. Trallalalalalalala. 


Friday, January 17, 2014

allskonar garnblogg

mynd héðan
Ég tek reglulega bloggrúnt um handavinnuheima internetsins því það er jú svo gaman að skoða hvað aðrir garnsjúklingar um víða veröld eru að prjóna og hekla. Mér finnst reyndar íslensk prjóna- og heklblogg vera frekar fá og lítil virkni á mörgum en mín kenning er sú að prjónarar og heklarar þessa lands kjósi almennt fremur að nýta frítíma sinn til að skapa einhverja snilld úr fallegu garni en að blogga. Er það ekki? Þegar ég sjálf sest niður við tölvuna við bloggskrif læðist ósjaldan að mér sú hugsun að nú gæti maður verið að prjóna nokkrar lykkjur - maður hefði jafnvel getað verið að klára heila umferð eða tvær í stað þess að vera að þessari bloggvitleysu... ehemm. Annað sem er til í dæminu er að allt prjónið og heklið taki svo yfir heilastarfsemina að maður eigi ekkert eftir þegar loksins er sest við skrif, ég meinaða! Sit stundum bara tóm við tölvuna og man ekkert hvað ég ætlaði að blogga um, sérstaklega ef ég er nýbúin að fitja upp á einhverju skemmtilegu. Það bara kemst ekkert annað að sko. Þannig að fæð ofurvirkra íslenskra handavinnublogga á sér örugglega mjög eðlilegar (og garntengdar) skýringar.

En nóg um það! Þar sem smáttogsmátt er smátt og smátt alfarið að verða að handavinnubloggi ætla ég að uppfæra aðeins tenglalistann minn hérna til hægri þannig að á honum eru nú aðeins handavinnutengdar síður. Íslensku síðurnar fann ég flestar í gegnum frábæran tenglalista hjá þeim í Handverkskúnst, kann ég þeim bestu þakkir fyrir að hafa safnað þeim saman og fyrir að halda úti skemmtilegri, virkri, íslenskri handavinnusíðu! Mæli með henni ef þið hafið ekki kíkt þangað ennþá. Erlendu síðurnar eru þær sem ég hef fylgst með í lengri eða styttri tíma og haft sérstaklega gaman af. Endilega kommentið ef þið viljið benda á einhverjar frábær íslensk eða útlensk garnblogg sem ég er ekki búin að uppgötva sjálf :)

Hér er þetta í heild sinni:

Að lokum eru tvö blogg sem eru kannski ekki beint handavinnublogg en ég held mikið upp á vegna þess hvað myndirnar eru fallegar og hugmyndafræðin yndisleg (þar er þó oft að finna fallegt og skemmtilegt prjón, tek það fram!). Annað er hið íslenska http://elskulegt.blogspot.com/ sem Dúdda snillingur heldur úti og hitt hið bandaríska http://frontierdreams.blogspot.com/ sem Nicole Spring Waldorfmamma með risahjarta hefur staðið fyrir í sjö ár. Þessi tvö blogg gleðja alltaf bæði augun og sálina <3

Tuesday, November 19, 2013

koma vetrar




















Þótt veturinn sé kannski sú árstíð sem fylgir hvað mest veðurtengt vesen er hann einmitt allra notalegasta árstíðin að mínu mati. Ég er því bara ánægð með veður og færð undanfarna daga. Tek það þó fram að þar sem ég er alin upp í talsverði hæð yfir sjávarmáli norður í landi finnst mér reykvískir vetur yfirleitt frekar nettir og jafnvel klénir á köflum. Veturinn er fyrir mér og fremst frábær bóka, vínyl og garntími, svo ekki sé minnst á te- og kaffidrykkju (ég er algjörlega háð kaffinu hjá þeim á Reykjavík Roasters uppi á Kárastíg) og svo langa, frískandi göngutúra og skemmtilegar sleðaferðir og útileiki með syninum. Njótum vetursins og látum fallegar myndir af internetinu fylla okkur innblæstri!


Eitt að lokum. Ég er í miklum rannsóknarhug þessa dagana og beinist forvitni mín helst að því hversu mikið af frábærum prjóna- og handavinnubloggum er að finna í netheimum. Flest eru þau erlend þótt skemmtileg íslensk blogg leynist líka inn á milli. Hugmyndin hjá mér er að niðurstaða þessarar rannsóknarvinnu verði heljarlangur tenglalisti hér á blogginu, ykkur til fróðleiks og skemmtunar. Ég rakst t.d. á frábæra samantekt af húfuuppskriftum (smellið á mynd) sem allar gætu komið sér vel í nú um mundir...

Thursday, October 3, 2013

stofur og brosbarn










Elska allar þessar fallegu stofumyndir... er annars lítið að nota internetið þessa dagana og bloggið líður fyrir það. Hver nennir líka að hanga í tölvuni þegar svona gullmolar eru farnir að brosa til manns?