Ég er með ansi mörg verkefni á prjónunum núna og það er eiginlega ekki tilviljun því ég fékk um daginn svo svakalega löngun til að vera með margt í gangi í einu og geta skipt á milli að ég ákvað að láta það bara eftir mér. Það má! Hér að ofan sjást annars vegar Belluvettlingar sem ég er að byrja á (ísl. þýðing af uppskriftinni hér, mjög þakklát fyirr hana :) úr 5 þráða færeysku Snældugarni og hins vegar peysan Strýta sem ég er að prjóna á Odd nema hvað ég breyti uppskriftinni aðeins eftir hentugleika; sleppi munstri á ermum og bol, hef hana rennda og með hettu. Svo fer ég upp um hálfa prjónastærð því hún er líka úr 5 þráða Snældu. Það garn hefur lengi verið á óskalistanum og veldur engum vonbrigðum. Svakalega mjúkt og prjónast fallega.
Vettlingarnir eru fyrsta tilraun mín í kaðlaprjóni og það er ekkert eins flókið og ég hélt að það væri heldur bara fáránlega skemmtilegt. Kemur reyndar ekki á óvart þar sem ég elska útprjón og þetta er nú dálítið sama pælingin. Ég ætla að reyna að vera fljót að klára þá því þeir eru hluti af prjóna-meira-á-sjálfa-mig prjónaáramótaheitinu og gömlu vettlingarnir mínir eru að detta í sundur. Sem kemur sér ekki vel í snjónum um þessar mundir. Hvað rekur meira á eftir manni í vettlingaprjóni en blautur snjór og götóttar vettlingalufsur? Ekkert. (Nema kannski að maður ætti enga vettlinga fyrir).
Ég er líka að vinna í þessu fallega teppi sem langamma mín og nafna hefur verið að hekla fyrir Ósk langalangömmubarn. Mér finnst handverkið hennar ömmu svo fallegt og litirnir sérstaklega flottir. Því miður er hún orðin frekar slæm í höndunum og treystir sér ekki til að klára og ég tók það glöð að mér. Eins og sést á myndinni á bara eftir að festa síðustu dúllurnar við og gera kant. Ég er montin af að vera treyst fyrir fráganginum, mér finnst líka alltaf gaman að hekla teppi og þetta er engin undantekning.
Aðalverkefnið þessa dagana er samt Morganite peysan mín sem ég er komin ansi langt með, búin með bol og næstum báðar ermar. Ég er komin með leið á að vera með hana á hliðarlínunni og farið að langa að klæðast henni, þannig að ég lofaði sjálfri mér að klára þetta í mars. Sjáum hvort það tekst ekki örugglega! Svo er ég með tvö leyniverkefni í startholunum líka sem ég er ekki enn tilbúin að deila, t.d. eina uppskrift sem býr í kollinum en verður vonandi sett á blað/í garn einhverntíma.
Þangað til næst - bestu prjónakveðjur!
Oh, þetta er allt svo fínt hjá þér!
ReplyDeleteÉg er að gera lopapeysu á Sumarrós og svo fær Karítas líka lopapeysu. Þær verða báðar úr léttlopa og/eða plötulopa og einbandi. Er svolítið að nýta það sem ég á svo þetta verður eitthvað smá mix.
Svo er það mín eigin lopapeysa, mig dauðlangar að gera hana úr Snældunni. Ég þarf að fá að klappa henni aðeins meira fyrst áður en ég ákveð mig endanlega.