Showing posts with label áhugavert. Show all posts
Showing posts with label áhugavert. Show all posts

Monday, February 17, 2014

einn lítill vorboði

Það var að koma út nýtt Pom Pom blað! Ég skoðaði það í Litlu Prjónabúðinni síðasta fimmtudag og langar svona nokkurn veginn að prjóna hverja einustu flík (úff). Ég er reyndar nú þegar að vinna í Morganite peysunni minni og þó ég sé aaaalveg að verða búin með bolinn býst ég ekki við að fitja upp á neinu af þessu á næstu dögum. En kannski næstu vikum... 








Myndirnar eru fengnar af heimasíðu Pom Pom og eru allar úr nýja blaðinu, þar er líka hægt að kaupa vorblaðið, sem og eldri eintök, og lesa allskonar skemmtilegar prjónafréttir. Varúð - gæti valdið valkvíða!

Friday, January 17, 2014

allskonar garnblogg

mynd héðan
Ég tek reglulega bloggrúnt um handavinnuheima internetsins því það er jú svo gaman að skoða hvað aðrir garnsjúklingar um víða veröld eru að prjóna og hekla. Mér finnst reyndar íslensk prjóna- og heklblogg vera frekar fá og lítil virkni á mörgum en mín kenning er sú að prjónarar og heklarar þessa lands kjósi almennt fremur að nýta frítíma sinn til að skapa einhverja snilld úr fallegu garni en að blogga. Er það ekki? Þegar ég sjálf sest niður við tölvuna við bloggskrif læðist ósjaldan að mér sú hugsun að nú gæti maður verið að prjóna nokkrar lykkjur - maður hefði jafnvel getað verið að klára heila umferð eða tvær í stað þess að vera að þessari bloggvitleysu... ehemm. Annað sem er til í dæminu er að allt prjónið og heklið taki svo yfir heilastarfsemina að maður eigi ekkert eftir þegar loksins er sest við skrif, ég meinaða! Sit stundum bara tóm við tölvuna og man ekkert hvað ég ætlaði að blogga um, sérstaklega ef ég er nýbúin að fitja upp á einhverju skemmtilegu. Það bara kemst ekkert annað að sko. Þannig að fæð ofurvirkra íslenskra handavinnublogga á sér örugglega mjög eðlilegar (og garntengdar) skýringar.

En nóg um það! Þar sem smáttogsmátt er smátt og smátt alfarið að verða að handavinnubloggi ætla ég að uppfæra aðeins tenglalistann minn hérna til hægri þannig að á honum eru nú aðeins handavinnutengdar síður. Íslensku síðurnar fann ég flestar í gegnum frábæran tenglalista hjá þeim í Handverkskúnst, kann ég þeim bestu þakkir fyrir að hafa safnað þeim saman og fyrir að halda úti skemmtilegri, virkri, íslenskri handavinnusíðu! Mæli með henni ef þið hafið ekki kíkt þangað ennþá. Erlendu síðurnar eru þær sem ég hef fylgst með í lengri eða styttri tíma og haft sérstaklega gaman af. Endilega kommentið ef þið viljið benda á einhverjar frábær íslensk eða útlensk garnblogg sem ég er ekki búin að uppgötva sjálf :)

Hér er þetta í heild sinni:

Að lokum eru tvö blogg sem eru kannski ekki beint handavinnublogg en ég held mikið upp á vegna þess hvað myndirnar eru fallegar og hugmyndafræðin yndisleg (þar er þó oft að finna fallegt og skemmtilegt prjón, tek það fram!). Annað er hið íslenska http://elskulegt.blogspot.com/ sem Dúdda snillingur heldur úti og hitt hið bandaríska http://frontierdreams.blogspot.com/ sem Nicole Spring Waldorfmamma með risahjarta hefur staðið fyrir í sjö ár. Þessi tvö blogg gleðja alltaf bæði augun og sálina <3

Tuesday, October 29, 2013

tveimur lokið - tíu eftir enn


Í morgun kláraði ég loksins vettlingana Litlar stjörnur, sem voru garnbanaáskorun októbermánaðar. Ég viðurkenni að ég var orðin pínulítið stressuð að ná ekki að klára fyrir mánaðamót en þetta slapp því enn eru tveir dagar í nóvember. Ekki það að þetta sé svo flókið og tímafrekt verkefni, þvert á móti, ég bara byrjaði alltof seint. Svo gerði ég líka smávægilegar stærðarbreytingar en misreiknaði mig aðeins í þeim og þurfti að rekja tvisvar upp áður en ég náði þessu réttu, það tafði talsvert. Mér finnst þetta mjög sætir vettlingar og mynstrið sérstaklega skemmtilegt. Það fór rosalega lítið af garni í þá þannig að mig langar að prófa að nota mynstrið kannski líka í húfu og vettlinga á Ósk - held að það kæmi vel út og nenni vonandi einhverntímann að tjékka á því. Það eru svo mörg verkefni á listanum yfir það sem mig langar að afreka í handavinnunni að ég held að ég kæmist ekki yfir að prjóna/hekla þau öll þótt ég gerði ekkert annað allan sólarhringinn! Kannast nokkuð fleiri við það?



En þá að nóvemberáskorunni! Þar sem aukaáskorunin er að nota ljótasta garnið sitt, þ.e.a.s. það garn sem manni sjálfum finnst ljótast, dró ég fram tvær stórar sjálfmynstrandi akrýldokkur sem ég keypti á fáránlega lágu verði í Rúmfó fyrir næstum fjórum árum. Þetta var svona korteri eftir að ég byrjaði að prjóna og hekla og mér fannst algjör snilld að hægt væri að fá svona mikið af garni fyrir svona lítinn pening. Svo þegar ég ætlaði að vinna úr garninu komst ég að því að mér finnst liturinn frekar ljótur og akrýl-áferðin alveg forljót. Ég er búin að byrja á nokkrum verkefnum úr þessu garni en alltaf rakið upp því ég er bara ekki nógu hrifin af því. En þar sem við ætlum að vera með í Jól í skókassa þetta árið datt mér í hug að sennilega væri sárfátækt barn í útlöndum ekki jafn neikvætt gagnvart þessu garni og ég og hefði jafnvel bara gagn og gaman að því að fá peysu úr því. Þess vegna ætla ég að styðjast við uppskrift úr fyrri Prjónaperlubókinni og að einfaldri laskapeysu og reyna þannig að nota allt garnið. Ég stefni á að hún verið fyrir stelpu 3-6 ára og ef það verður afgangur ætla ég að gera eyrnaband í stíl. Og hér er aðaláskorunin: Þetta verður að vera tilbúið fyrir 8. nóv því 9. nóv er síðasti dagur til að skila inn skókössunum. Þannig að nú legg ég frá mér tölvuna og byrja á nóvemberpeysunni, ég prjóna ekkert svakalega hratt og veitir ekkert af tímanum...

Wednesday, August 28, 2013

gleðilegar heklfregnir


Margir heklarar fylgjast eflaust með facebook síðu Þóru-heklbókar, þar sem hún Tinna höfundur bókarinnar og handavinnusnilli setur reglulega inn fréttir og tilkynningar ýmiss konar. Ég kíkti inn á síðuna um daginn og sá þá að hún var að auglýsa eftir kríusjölum til að nota i smá hekl-innsetningu í Bókabúð Máls og menningar í tilefni útgáfuhófsins sem þar verður haldið á morgun (sjá myndina hérna undir). Ég á eina dásamlega Kríu sem ég lærði að hekla á námskeiði hjá Tinnu í fyrrahaust og hef notað mikið síðan, þannig að mér fannst auðvitað ekki nema sjálfsagt að taka þátt í þessari frábæru sýningu. Og ég var m.a.s. svo heppin að þegar ég kom við á vinnustofu Tinnu til að afhenda góssið fékk ég að skoða nýju heklbókina Maríu sem er einmitt að koma út. Hún er ÆÐI og ég hef ekki getað hætt að hugsa um allar fínu uppskriftirnar og leiðbeiningarnar í henni. Það er góður heklvetur framundan fyrir þá sem næla sér í eina svona, skal ég segja ykkur. 


Síðar í dag verður svo haldin sérstök sýning, allra fyrsta kynning, á Maríu - heklbók í Litlu prjónabúðinni. Milli 16 og 18 verður hægt að skoða bókina og öll stykkin úr henni auk þess sem Tinna verður á staðnum til að segja frá og vera skemmtileg :) Sjáumst vonandi þar!


Og að lokum - dúlluteppið er loksins tilbúið! Ég hef enn ekki náð góðum myndum af lokaútgáfunni svo þessi instamynd verður að duga í bili. Ég er að setja saman rosalega handavinnufærslu enda mikil færibandaframleiðsla í gangi þessa dagana, þar sem ég er hætt að vinna og að "bíða" eftir barninu. 40 vikur á morgun :)

Saturday, August 10, 2013

kjúklingabaunir: hagkvæmni og hollusta


Hér á bæ verðum við sífellt áhugasamari um hollt mataræði (og skemmtilega hreyfingu, en það er efni í aðra færslu seinna), að hluta til vegna þess að heimilisfaðirinn er viðkvæmur í maganum en líka vegna þess að eftir því sem við höfum fullorðnast og sjóast í barnauppeldi komumst við betur og betur að því hvað hollur og góður matur gerir öllum gott, bæði í lund og skrokk. Svo eru bein tengsl á milli umhverfismeðvitundar og valkosta í mataræði, t.d. hvar fæðan er framleidd, hversu langt hún er flutt og hvaða efni eru notuð við framleiðsluna og þetta er eitthvað sem við reynum að pæla í. 

Þegar við vorum að byrja að velja hollari fæðu fyrir svona ári síðan fannst okkur áberandi að flestar heilsuvörur eða hollari kostir væru margfalt dýrari en það sem við höfðum áður verið að kaupa. Verandi bæði námsmenn völdum við áður yfirleitt það alódýrasta í Bónus sem er Euroshopper pasta, niðursuðuvörur og gjarnan unnan kjöt- og fiskvörur. Svo ekki sé minnst á pakkanúðlur! En þetta er allt meira og minna fullt af hvítu hveiti og hvítum sykri, geri, aukaefnum og rotvarnarefnum og bara öllu sem einkennir fæðu sem er komin langt frá uppruna sínum. Þannig að við vorum lengi framan af, og erum að mörgu leyti enn, að læra að kaupa inn hollustu án þess að fara á hausinn. Veraldarvefurinn geymir auðvitað hafsjó af fróðleik og á Cafe Sigrun má finna mörg góð ráð, sér í lagi þessi hérna um hvað sé hægt að gera til að draga úr kostnaði en borða samt hollan og lítið unninn mat. 

Á heimasíðu Himneskt má líka finna ágæta fræðslu um hagkvæmni og hollustu, auk þess sem vörurnar þeirra eru til sölu í Bónus og margar hverjar ekkert svo dýrar. Við kaupum oft þessar vörur, t.d. speltið og vínsteinslyftiduftið sem kosta frekar lítið miðað við hvað er hægt að búa til margt gott úr því. Þá getum við bakað okkar eigið brauð og sjálf búið til kökur, kex og pizzur sem er sko miklu ódýrara en að kaupa það úti í bakarí eða á skyndibitastöðum. Annað sem er ekki dýrt er ferskt grænmeti og ávextir, ég kaupi rosalega mikið af því vegna þess að maður getur fengið svo mikið magn fyrir svo fáar krónur. Og svo, það sem þessi færsla átti upphaflega að vera um, er upplagt að vera dugleg að nota baunir því þær eru svo frábærar í allskonar rétti og ekkert dýrar þegar maður kaupir fullan poka og eldar sjálfur. Um daginn suðum við fullan pott af lífrænum kjúklingabaunum og bjuggum svo til tvölfaldan skammt af buffum, einn til að borða um kvöldið og annan til að frysta og eiga sem fljótlega máltíð í frystinum. Þó áttum við nægan afgang af baunum til að fyrsta tvo skammta sem er svo hægt að henda út í súpur og pottrétti og samt var nóg eftir til að búa til dásamlegan hummus. Hagkvæmnin í hámarki! 

Ég tók þessa mynd hér að ofan af buffunum því mér fannst þau svo falleg á litinn. Uppskriftina fékk ég í gömlu Hagkaupsbókinni eftir Sólveigu Eiríksdóttur, Grænn kostur Hagkaupa, sem er held ég ófáanleg í dag nema í fornbókasölu. Þau voru dásamlega góð og ekkert flókin eldamennska:

Kjúklingabaunaborgarar

3 dl soðnar kjúklingabaunir
2 stk soðnar kartöflur
2 msk kartöflumjöl (ég notaði maísmjöl)
1 stk meðalstór blaðlaukur
1 hvítlauksrif
1 msk rifinn sítrónubörkur
2 tsk karri
hnefi af ferskri steinselju
smá sjávarsalt og nýmalaður pipar

rasp: 
smá maísmjöl
smá spelt
nokkrar rósmarínnálar (ég sleppti þeim)

Stappið soðnu kjúklingabaunirnar og kartöflurnar. Saxið blaðlauk, hvítlauk og steinselju smátt og rífið sítrónubörk. Setjið allt í hrærivél og hrærið saman. Mótið 8 borgara, veltið þeim upp úr raspinu og látið standa í ísskáp smá stund. Hitið olíu á pönnu og steikið borgarana í um 2 mín á hvorri hlið, eða þar til þeir verða gylltir og flottir.

 Hér er líka ein frábær uppskrift sem ég ætla líka að prófa bráðum. Þetta er að verða dálítil langloka hjá mér núna og best að hætta í bili. Eigið góða helgi!

Thursday, July 18, 2013

viðeyjarævintýri







Eftir ljúft hálfs mánaðar sumarfrí í Mývatnssveit, hvar slakt netsamband og almenn afslöppun bauð ekki upp á mikla bloggvirkni, erum við mæðgin komin aftur í bæinn. Í gær vorum við svo heppin að skreppa út í Viðey með vinum okkar, þangað hafði ég aldrei komið og Úlfur ekki heldur. Hélt einhvernveginn að þetta væri lengra í burtu en svo er þetta algjör skottúr og kostar bara 1100 kr fyrir fullorðna, það er nú ekki mikið. Veðrið lék við okkur og þetta var þvílíkur dásemdardagur með nestisferð, róló, gönguferð og fjörukönnun - allt á einni eyju!

Tuesday, June 4, 2013

garðyrkjuáhugi á grunnstigi




Ég hef nánast enga reynslu af garðrækt, annað en þetta helsta: Ég kann að slá gras og vökva með vökvukönnu og er svona þokkaleg í að reita arfa og tína rabbarbara... en þar með er kunnátta mín nokkurn veginn upptalin. Það má því segja að ég sé algjör byrjandi. Mér finnst samt frekar gaman að vinna í garðinum og kippi mér ekkert upp við að verða skítug, tregðan við afrek á þessu sviði stafar af rótgróinni og fullkomlega stjórnlausri pödduhræðslu minni sem á það til að standa í vegi fyrir því að ég komi nálægt beðum og runnum þar sem köngulær og geitungar eru á hverju strái. (Bókstaflega). 

En ég á stóran og fínan garð hér í Gamla Vesturbænum og því algjör synd að ég skuli ekki vera duglegri að vinna í honum. Við erum reyndar dálítið dugleg að slá grasið en það telst nú varla mikil garðrækt! Í fyrra gaf nágranni minn Úlfar mér jarðaberjaplöntu (hann og konan hans eru garðræktarsnillingar) sem mér tókst að hlúa nægilega að til að eignast í sumarlok tvö lítil jarðarber sem voru auðvitað himnesk á bragðið. Nú höfum við prófað að setja niður kartöflur og gulrætur og verðum bara að sjá til hvernig uppskeran tekst. Höfum allavega lítið þurft að hafa áhyggjur af því að vökva eins og veðrið hefur verið, ehemm, en ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvernig plönturnar sem koma upp eiga að vera og væri vís til að reita þær í burtu, haldandi að þær væru arfi. Ég er það glórulaus hvað þetta varðar. 

En þetta er a.m.k. í startholunum hjá mér, auk kryddjurtaræktarinnar í gluggakistunni auðvitað, og einhvern daginn verð ég kannski jafn dugleg og klár í garðstörfum eins og nágrannar mínir og allt fólkið í þáttunum hennar Gurrýjar í garðinum, sem sýndir eru á þriðjudagskvöldum á RÚV. Það eru mjög skemmtilegir og áhugaverðir þættir sé maður skápagarðyrkjuunnandi eins og ég. Hef nú þegar lært meira af þessum þáttum en nokkrum matreiðsluþætti sem ég hef séð... þegar ég pæli í því er óskiljanlegt hvers vegna alltaf er verið að gera þessa matreiðsluþætti en ekki kenna fólki að rækta sinn eigin mat. Miklu gagnlegra!