Wednesday, July 31, 2013

að setja dúllur saman í síðustu umferð





Dúlluteppið góða er alveg að verða tilbúið, sem er líka ágætt því nú er innan við mánuður í settan dag og spenningur hér í fjölskyldunni mjög að aukast. Af biturri reynslu þvoði ég allar lituðu dúllurnar áður en ég hófst handa við að hekla hvítt utan um þær. Ég lenti í því fyrir nokkrum mánuðum að einn liturinn í dúlluteppi sem ég gerði litaði allt hvíta garnið í lokaþvotti þannig að það varð pastelbleikt - mjög svekkjandi þar sem teppið var tilbúið! Ég þurfti að rekja upp allt bleiklitaða garnið og sökudólginn og í hönd fóru margar vikur í að hekla nýja búta og klára teppið upp á nýtt. Á endanum varð það samt fallegra en upphaflega útgáfan, sem betur fer, og ég gat verið svolítið stolt af eigin þvermóðsku og þolinmæði. Ég mun samt aldrei aftur þora að sleppa því að prufuþvo litaða búta ef ég ætla að hafa ljóst garn með í teppinu.

Í þetta sinn ákvað ég að prófa aðferð sem kennd er í Þóru - heklbók þar sem maður festir bútinn í teppið um leið og maður heklar síðustu umferð. Hvílík snilld! Mæli með þessari aðferð! Gengur miklu hraðar og mér sýnist ég líka spara garn. Utan um dúllurnar, sem eru úr kambgarni, nota ég Semilla Fino lífræna ullargarnið úr Litlu prjónabúðinni, aðallega af því ég átti góðan afgang af því en líka af því það er eiginlega uppáhalds, svo mjúkt og meðfærilegt og yndislegt.

No comments:

Post a Comment