Wednesday, August 28, 2013

gleðilegar heklfregnir


Margir heklarar fylgjast eflaust með facebook síðu Þóru-heklbókar, þar sem hún Tinna höfundur bókarinnar og handavinnusnilli setur reglulega inn fréttir og tilkynningar ýmiss konar. Ég kíkti inn á síðuna um daginn og sá þá að hún var að auglýsa eftir kríusjölum til að nota i smá hekl-innsetningu í Bókabúð Máls og menningar í tilefni útgáfuhófsins sem þar verður haldið á morgun (sjá myndina hérna undir). Ég á eina dásamlega Kríu sem ég lærði að hekla á námskeiði hjá Tinnu í fyrrahaust og hef notað mikið síðan, þannig að mér fannst auðvitað ekki nema sjálfsagt að taka þátt í þessari frábæru sýningu. Og ég var m.a.s. svo heppin að þegar ég kom við á vinnustofu Tinnu til að afhenda góssið fékk ég að skoða nýju heklbókina Maríu sem er einmitt að koma út. Hún er ÆÐI og ég hef ekki getað hætt að hugsa um allar fínu uppskriftirnar og leiðbeiningarnar í henni. Það er góður heklvetur framundan fyrir þá sem næla sér í eina svona, skal ég segja ykkur. 


Síðar í dag verður svo haldin sérstök sýning, allra fyrsta kynning, á Maríu - heklbók í Litlu prjónabúðinni. Milli 16 og 18 verður hægt að skoða bókina og öll stykkin úr henni auk þess sem Tinna verður á staðnum til að segja frá og vera skemmtileg :) Sjáumst vonandi þar!


Og að lokum - dúlluteppið er loksins tilbúið! Ég hef enn ekki náð góðum myndum af lokaútgáfunni svo þessi instamynd verður að duga í bili. Ég er að setja saman rosalega handavinnufærslu enda mikil færibandaframleiðsla í gangi þessa dagana, þar sem ég er hætt að vinna og að "bíða" eftir barninu. 40 vikur á morgun :)

No comments:

Post a Comment