Granny square afgangateppi til góðs
Garn: Allskonar afgangar, enginn lopi þó
Nál: nr. 4,5
Uppskrift: Ömmuferningur úr Þóru heklbók og dúllur settar saman í síðstu umferð, einnig kennt í Þóru
Ég ákvað á sunnudaginn fyrir rúmri viku að vera með í aukaáskorun Hnoðra og hnykla, þeirri sem snerist um að nýta garnafgangana til góðs, og dró fram ýmsa hnykla sem ég hef verið að vandræðast með auk nokkurra dúll-na (haha) sem hafa orðið afgangs í öðrum teppum. Svo snaraði ég bara fram einu teppi, að vísu voða litlu, á fimm dögum! Mér finnst það hafa tekist prýðilega og þótt það vinni kannski engar teppafegurðarsamkeppnir þá finnst mér einhver sjarmi yfir því. Satt að segja finnst mér það svo krúttlegt að nú langar mig bara að láta verða af því að byrja á einu svona langtímaafgangaheklteppi fyrir mitt eigið heimili. Í öllu falli vona ég að þetta litla teppi hlýji og gleðji einhvern sem á þarf að halda.
Bóndadagsvettlingar
Garn: Álafosslopi
Prjónar: nr. 4,5 og 6
Uppskrift: Tveggja þumla karlmannsvettlingar eftir Kristínu Harðardóttur
Þessi síðbúna bóndadagsgjöf var svo kláruð um helgina. Oddur er glaður með þá og ég er glöð með þá og svei mér þá ef vettlingarnir eru ekki bara svolítið glaðir með sjálfa sig. Ég breytti mynstrinu aðeins, langaðI að hafa það svona þykkt. Svo hafði ég bara tvo þumla alls... fannst fjórir eitthvað fullvel í lagt að þessu sinni. Uppskriftina er hægt að kaupa staka í Handprjónasambandinu fyrir slikk.
Annars hef ég tekið eftir auknum fjölda heimsókna upp á síðkastið og þakka kærlega fyrir innlitið!
Bestu kveðjur, sæl að sinni :)
Flott verkefni og frábær bóndadagsgjöf!
ReplyDelete