Nú er í gangi ótrúlega sniðug áskorun sem þær stöllur á handavinnublogginu Hnoðrar og hnyklar standa fyrir og ég stefni á að taka þátt í henni til fulls. Áskorunin snýst um að vinna aðeins með garn sem maður á fyrir, þ.e. garnbirgðir og afganga og útbúa úr þeim eitt verkefni á mánuði næstu 12 mánuði. Verkefnið þarf að ákveða fyrir fyrsta hvers mánaðar og klára fyrir síðasta dag þess mánaðar (ef ég skil reglurnar rétt) og það er stranglega bannað að kaupa nýtt garn í verkefnin - bara nota það sem þegar er til. Þar sem ég er ALLTAF að reyna að grynnka á garnskúffunni minni er þetta tilvalið fyrir mig, svo ekki sé minnst á hvað ég hef gaman af áskorunum og keppnum! Endilega takið þátt, hér er hægt að kynna sér fyrirkomulagið betur og hér eru reglurnar nákvæmlega útlistaðar.
Fyrsta áskorunin - september 2013 - er ekki sérlega flókið verkefni en það er nú með ráðum gert vegna þess að ég hyggst sinna ungbarninu meira en handavinnunni (allavega svona fyrstu vikurnar! haha) og vil því ekki ætla mér um of. Þetta Dale þykka ullargarn hefur setið í garnskúffunni í svona tvö ár og starað á mig en ég hef hingað til ekki getað látið mér detta neitt gáfulegt í hug að gera við það. Þar til nú: Ég ætla að hekla trefilinn Stuðlaberg úr Þóru - heklbók. Það er einfalt og gott verkefni í svæsnustu sængurlegunni og svo verð ég örugglega mjög smart með trefilinn á barnavagnarölti fram eftir hausti. Og þá er bara að byrja!
No comments:
Post a Comment