Showing posts with label áskorun. Show all posts
Showing posts with label áskorun. Show all posts

Monday, April 14, 2014

fyrstu vorverkin - og töfravettlingar!












Það er ekkert hægt að þræta fyrir það lengur að vorið er komið, mér til mikillar ánægju þar sem þetta er uppáhaldsárstíðin mín. Sólin fer að skína, gróðurinn tekur við sér, páskarnir (mmm, súkkulaði) og afmælið mitt... það er líka svo góð stemming á vorin, enginn kominn með leið á að grilla og allir glaðir þótt það sé gluggaveður. Við drifum okkur út í garð í sólskininu í gær og hófumst handa við að stinga upp, tína rusl, sópa, raka og aðeins snyrta til í garðinum eftir veturinn. Úlfur veit fátt skemmtilegra en að taka þátt í svona brasi og lék á als oddi, of upptekinn til að horfa í myndavélina enda ótrúlega vinnusamur og duglegur miðað við að vera bara á fimmta ári. Ósk fékk í fyrsta sinn að sitja sjálf í grasinu og leika sér, hún dundaði sér þar heillengi og lét ekkert hafa fyrir sér. Næst á dagskrá er svo að fara að sá kryddjurtunum og undirbúa matjurtagarðinn fyrir sumarið.




Alltaf þegar ég prjóna leikskólavettlinga á Úlf enda þeir á því að þæfast og minnka rosalega því þeir blotna í útileik á leikskólanum og eru svo settir á rjúkandi heitan ofn svo þeir nái að þorna (Svo týnast þeir líka alltaf á endanum. Það er eitthvað vettlingasvarthol í alheiminum fullt af vettlingum sem ég hef prjónað á þennan dreng). Ég ákvað að halda áfram að klára kambgarnið í garnbanaáskoruninnni og prjónaði þessa röndóttu vettlinga í minni stærð, náði að klára marga marga pínulitla hnykla sem höfðu verið að þvælast fyrir mér, og svo setti ég þá í þvottavélina og þæfði þar til þeir voru passlegir á Úlf. Úlfur fékk einmitt að fylgjast með. Honum fannst þetta vera mestu töfrar og kallaði þvottavélina bara "Minnkarann", haha. Ég gætti þess að skrifa uppskriftina niður svo ég geti gert fleiri seinna og er fegin því þeir heppnuðust svo vel og eru eiginlega algjört æði. Og þá er líka áskorun mánaðarins frá.

Monday, March 31, 2014

mánudagur: búið og gert!









Loksins heyrist frá mér! Ég hef verið mjög dul handavinnulega séð undanfarið, allavega hér á alnetinu, því ég tók upp á því að hanna mína allra fyrstu uppskrift með tilheyrandi tímagleypugangi og fyrirhöfn. Flíkin er leyndó enn sem komið er og því lítið af afrakstri til sýnis hér í dag. Ég fékk á sama tíma leið á að vera með mörg verkefni í gangi (ókei, hefði getað sagt mér það fyrirfram en stundum þarf að prófa til að vera viss) og þegar ljósbláa peysan var sett á ís vegna villu í uppskriftinni langaði mig næstum að hætta við þetta alltsaman. Í staðinn ákvað ég að fara í "klára"átak og klára bara sem flest verkefni svo ég geti snúið aftur til einfaldara prjónalífs. 

Fyrst á dagskrá var að klára þessa yndislegu vettlinga þar sem mér var alltaf kalt á höndunum (gömlu orðnir götóttir) og ég var líka viss um að um leið og ég lyki við þetta par kæmi vorið og vettlingar yrðu óþarfir. Veðrið í dag rennir stoðum undir þessa kenningu mína en vettlingarnir eru vel þegnir fyrir því. Uppskriftina er hægt að nálgast í íslenskri þýðingu (sjá Ravelry verkefnið) og ég var rosalega fljót að komast upp á lagið með kaðlaprjónið þrátt fyrir að vera algjör byrjandi á því sviði. Snælda er alveg ótrúlegt garn, þið verið að prófa ef þið hafið ekki gert það nú þegar! Það mýkist um helming í þvotti og verður svona "flöffí" eins og sést á myndunum hér að ofan. Algjör dásemd. 

Ég átti líka eftir að gera afgangaverkefni fyrir marsmánuð. Þar sem mér fannst svo skemmtilegt að prjóna Belluvettlingana og Ósk vantaði einmitt vettlinga (lesist: vettlinga sem hún gæti ekki náð af sér sjálf... barnið er algjör Houdini þegar kemur að því að rífa allt af höndunum á sér) skellti ég í pínulítið Bellupar handa henni. Ég notaði eitthvað ullargarn sem langamma gaf mér. Það var miðalaust þegar ég fékk það svo ég veit ekkert hvaða tegund það er, en ég notaði tvöfalt til að gera vettlingana aðeins stífari. Gerði þá á prjóna 3,5 og fitjaði upp 27 L í stað 35, hafði líka kaðlana þannig að þeir gengu upp í 8 lykkjur en ekki 12. Þess vegna eru þeir aðeins flatari en mínir. Ég er mjög ánægð með þá og finnst gaman að við mæðgur eigum eins :) Og það besta er að barninu virðist enn sem komið ómögulegt að ná þeim af sér. 

Nú er ég bara með fjögur verkefni í gangi: eitt leynisjal í samprjóni (stóðst ekki mátið...), peysuna hans Odds, heklaða langömmuteppið og ljósbláu peysuna. Áfram með klárið! 

Monday, March 3, 2014

mánudagur: búið og gert!







Pattern: Hue, vanter og krave by Lene Holme Samsøe
Published in: Babystrik på pinde
Needles: 2,5 mm og 3 mm

Ég mundi allt í einu í síðustu viku að ég átti alveg eftir að gera verkefni úr afgöngum eða birgðum fyrir febrúarmánuð. Góðgerðateppið var í raun aukaáskorun og ekkert febrúarverkefni enn á prjónunum. Mig hafði lengi langað að gera lítinn kraga á Ósk svo hún þurfi ekki alltaf að vera með lambhúshettu og átti einmitt uppskrift af einum í Babystrik pa pinde og yndislegan bómullar/lambsullarafgang frá Geilsk síðan ég prjónaði röndóttu peysuna hans Úlfs síðasta sumar. Tölurnar keypti ég í Ömmu mús í haust þegar Ósk var alveg glæný og mér fannst þær svo tilvaldar á eitthvert krúttustykki handa henni. Kraginn er í stærð 6-12 mánaða og er svolítið stór á hana ennþá, meira eins og herðaslá reyndar, en voða hlýr og mjúkur og sætur. Svo varð hún 6 mánaða í gær þannig að ætli þetta verði ekki farið að passa bara alltof fljótt *andvarp* Já, tíminn líður!

Monday, January 20, 2014

mánudagur: búið og gert!

Ljúf helgi að baki, ég fór til dæmis aðeins í Litlu Prjónabúðina þar sem ég prjónaði með Lindu vinkonu minni, kynntist mörgum skemmtilegum prjónurum/heklurum og rakst á ýmsa kunningja sem gaman var að spjalla við. Ég byrjaði líka að prjóna fyrstu vísbendinguna í leynisamprjóni Isoldu Teague, segi ykkur meira frá því bráðum, og tók til í geymslunni minni sem var mjög þarft verk. Verðlaun fyrir að nenna því voru að sjálfsögðu ísferð í Valdís og svo að geta opnað geymsluna á þriggja mínútna fresti í dag til að dást að allri reiðunni og skipulaginu. Ahhh. 


Needle: 3.5 mm
Size: 6 months

Ég kláraði plómulitu peysuna handa Ósk í síðustu viku og finnst hún fara henni svakalega vel, er það annars bara ég eða bliknar blessuð peysan ekki alveg í návist þessarar fallegu stelpu? 

Varð nú svolítið leið á henni (peysunni, erfitt að fá leið á Ósk) þar sem þetta var bara garðaprjón eftir annars mjög skemmtilega útaukningu í laskakaðlinum. En ég setti undir mig hausinn og er mjög fegin því mikið finnst mér hún fín. Tölurnar fengust í Litlu Prjónabúðinni og setja alveg punktinn yfir i-ið, en peysan er ennþá það stór að það þarf að bretta upp ermar þannig að hún á eftir að duga lengi.  Ég studdist við nýju Prjónabiblíuna til að finna fallega leið til að sauma saman undir ermum og er mjög ánægð með útkomuna. Batnandi konu er best að lifa og ég ÆTLA að verða snillingur í fallegum frágangi. 





Henti líka í eitt afgangaverkefni fyrir garnbanaáskorunina góðu en fyrir valinu urðu heklaðir slefmekkir þar sem Ósk er að fá fyrstu tönnina og slefar alveg eins og óð kona. Liggur við að maður sé að hekla undan straumnum! 


Pattern: Kría eftir Tinnu Þórudóttur Þorvaldsdóttur, með smá breytingum sem ég sá á facebooksíðu hennar einhverntímann fyrir jól
Yarn: Fashion IRO dk og ýmsir afgangar
Hook: 2.5 mm



Lykillinn er að hekla frekar þétt og hafa bara 2 ll í upphafi hverrar umferðar í stað 3 ll eins og segir í sjaluppskriftinni. Ég er mjög ánægð með hvernig þetta tókst til hjá mér og gæti alveg hugsað mér að henda stundum í svona smekki til dæmis í sængurgjafir og svoleiðis. Annars er ég að pæla í að taka líka þátt í aukaáskoruninni sem er fyrir góðan málstað, endilega kíkið á það ef þið getið! Meira um það hér. Ég á alveg fullt af kambgarni ennþá sem væri fullkomið í fallegt og hlýtt teppi fyrir þá sem ekki eru jafn heppnir og litla ég (en mikið vildi ég að allir í heiminum væru jafn heppnir, ég segi það satt!).

Þar til næst - hafið það gott!

Monday, January 13, 2014

prjónaáramótaheit


Ég þarf að leiðrétta fullyrðingu mína héðan úr síðustu færslu því ég náði reyndar að taka mynd af einni jólagjöf, það var þessi glaðlega hjálmhúfa sem ég prjónaði á lítinn frænda í Mývatnssveit. Hann kom með mömmu sinni í heimsókn til mín á gamlársdag og þá fékk ég að taka mynd af honum með húfuna. Hann er svo kátur og krúttlegur að mér finnst þessi mynd bara algjör gleðisprengja! En þetta var sem sagt afgangaverkefnið í desember því þessi húfa varð til úr kambgarnsafgöngum. Ég heklaði líka eina hippalega hexagonpeysu úr afgöngum en hún fór algjörlega óljósmynduð í sinn pakka.


Og áfram heldur áskorunarhandavinnan því í janúar ætla ég að hekla/prjóna slefsmekki fyrir Ósk (ekki veitir af, úff) úr ýmsum bómullarafgöngum og einni dokku af þessu skemmtilega IRO bómullargarni, lengst til hægri, sem ég keypti í Litlu Prjónabúðinni fyrir jól. Ég er nú þegar búin með næstum þrjá Kríuunga úr þessu garni og það er rosalega flott hvernig litbrigðin koma fram. Myndir af því seinna!


Ég strengdi að vanda prjónaáramótaheit, sem er einfaldlega að gera meira á sjálfa mig árið 2014. Hef hingað til verið hrikalega örlát í garð annarra í handavinnunni og er einhvernveginn alltaf að prjóna og hekla á annað fólk þannig að nú verður gert átak í þeim málum. Fyrsta verkefnið er jólagjöf frá foreldrum mínum en mamma, þekkjandi prjónaóða dóttur sína, gaf mér kaupferð í Litlu Prjónabúðina að eigin vali í jólagjöf. Við fórum saman og þetta varð yndisleg heimsókn þar sem ég endaði á að kaupa mér 10 dokkur af Geilsk hamp-ullarblöndu (garn sem kemur skemmtilega á óvart!) og Pompom blað síðasta hausts. Er núna að prjóna mér peysuna Morganite og get auðvitað ekki beðið eftir lokaafurðinni. Þessi blái litur er geggjaður og ekki líkur neinu sem ég á fyrir í fataskápnum.

Annars er ég bara að leggja lokahönd á frágang í plómulitu peysunni hennar Óskar (sem er reyndar eggaldinlituð ef miðað er við upplýsingar frá garnframleiðandanum) og með eitt eða tvö pör af vettlingum í bígerð. Gangi öllum vel með sitt og sína :)

Tuesday, December 10, 2013

bara smá




Ég var nú ekki lengi að svíkja loforðið um aukna bloggvirkni en það á sér reyndar alveg eðlilegar skýringar. Við mægður lentum í brjóstagjafaveseni sem átti tíma minn og athygli svotil óskipta í næstum hálfan mánuð og ég er bara fyrst núna farin að hugsa um eitthvað annað (afsakanir, afsakanir...) en það þýðir jú að loksins get ég dregið fram myndavélina og tölvuna af heilum hug. Mitt í öllu mjólkurstandinu snaraði ég fram fjórum litlum jólarósum til að skreyta aðventukransinn með, ég ákvað að nenna ekki að stífa þær en uppskriftin kemur úr Þóru - heklbók og er þar sem bókamerki. Mjög ánægð með þennan einfalda krans. Þarf samt að passa súper vel að gleyma ekki að slökkva a kertunum því garnið er auðvitað mjög eldfimt. 

Annars eru bara jólagjafir og aftur jólagjafir í vinnslu hérna. Ég gerði mér grein fyrir því að desemberáskorunin mætti ekki ræna dýrmætum jólagjafatíma og því verður verkefnið sett í jólapakka, ætla að hekla sæta hexagonpeysu úr kambgarnsafgöngunum mínum og reyna bara að hafa hana sem litríkasta. Eina verkefnið þessa dagana sem ekki er til jóla er sæta plómupeysan á Ósk sem ég svo píndi sjálfa mig til að setja ofan í skúffu um helgina þegar ég áttaði mig á því að nú eru ekki nema tvær vikur til stefnu...
Ekkert stress. Bara smá. 

Monday, November 25, 2013

í fréttum er þetta helst



Skemmtilegt og einfalt föndur sem sló í gegn hjá unga manninum. Fyrst var var vatnslitað inn í skapalónsteikningar og svo dýrin klippt út og límd á annað blað. 



Systir mín stakk upp á sushigerð á föstudaginn fyrir rúmri viku og ég sló til þrátt fyrir að vera algjör byrjandi sjálf. Hún kenndi mér helstu handtökin og það kom mér á óvart hvað þetta er lítið vesen. Úlfi fannst sushigerðin rosalega spennandi og aðstoðaði heilmikið. Og þó maður geri þetta heima þarf það ekki að vera slappt, allir sem á fengu að bragða voru sammála um að þetta væri engu síðra en á veitingastað! Það besta var að við bjuggum til óheyrilegt magn og því gátum við og kærastarnir borðað okkur algjörlega pakksödd og áttum meira að segja afgang. Nú skil ég bara ekki af hverju ég hafði ekki prófað þetta fyrr... og er byrjuð að plana næsta sushikvöld. 





Eftir veikindin og inniveruna mátti Úlfur loksins fara út um síðustu helgi, allir á heimilinu voru mjög hamingjusamir hvað það varðaði. Við fórum þó hægt af stað og kíktum bara á Kjarvalsstaði á laugardeginum. Þar gat strákurinn hlaupið og ærslast á göngunum (og aðeins í sölunum, úps) á meðan við foreldrarnir kíktum á ljósmyndir Rodchenko og allskonar málverk eftir Kjarval. Mjög skemmtilegar sýningar, mæli með! Í uppáhaldi var þó listasmiðjan sem hefur verið útbúin fyrir krakka en þar er góð aðstaða til að teikna og skoða listaverkabækur. 


Á sunnudeginum var svo í boði að fara út að leika í snjónum. Við notuðum daginn til að taka aðeins til í garðinum, flokka flöskur og dósir, hlúa að pottablómunum okkar og fleira í þeim dúr. Úlfur var alsæll með snjóinn og felldi tár þegar hann þiðnaði tveimur dögum síðar. 



Ég er búin að eiga dálítið strembnar prjónavikur upp á síðkastið, hef t.d. mikið þurft að rekja upp og ekki alltaf verið ánægð með verkefnin mín. Ég setti mér líka dálítið margar jólagjafir fyrir og var komin í stress þannig að ég helmingaði þá áætlun bara - ekkert gaman að gefa heimatilbúnar gjafir ef þær eru ekki búnar til af sannri gleði! En nú virðist prjónalukkan aftur vera orðin mér hliðholl og ég hef verið að klára allskonar skemmtileg verkefni - svo ekki sé minnst á að byrja á allskonar skemmtilegu. Ég heklaði þessa peysu úr lamaull frá Strikkebogen sem fæst í Litlu Prjónabúðinni og get ekki annað en gefið því garni toppeinkunn, alveg dásamlega mjúkt og meðfærilegt og svo eru litirnir mér að skapi. Uppskriftin er í Maríu heklbók og heitir Úlfagull (ég gat ekki annað en gert hana á Úlfagullið mitt!) en ég hef aldrei heklað neitt svona flókið áður og að tala um að þetta hafi verið erfitt lærdómsríkt væri understatement, svo ég sletti. Útkoman er sem betur fer bara nokkuð góð þrátt fyrir svolítið ljót samskeyti (sjást ekki á mynd) og það að peysan er svona tveimur stærðum of stór á barnið (redda því með teygjutvinna í hálsinn og uppbrettum ermum). Að öðru leyti er ég himinlifandi með hana og er strax búin að ákveða að gera aðra (minni). 



Svo var Oddur að biðja um lopavettlinga og þá fannst mér bjóðast fullkomið tækifæri til að nýta plötulopaafganga í verkið. Ég er nú þegar búin með ljótgarnsáskorun Hnoðra og hnykla en þar sem það var í raun aukaáskorun og enn nóg eftir af mánuðinum (og garnbirgðunum, ehemm), henti ég í risastóra lopavettlinga á manninn. Ég prjónaði þá bara upp úr mér og þeir urðu svolítið stórir, en þegar ég hafði orð á því að rekja upp og minnka aðeins tók Oddur það ekki í mál og vildi bara hafa þá svona gerðarlega. Mér finnst þeir bara sætir þegar allt kemur til alls og eitthvað krúttlega jólasveinalegt við litina og stærðina.




Nú eru á prjónunum tvennar jólagjafir sem eðli málsins samkvæmt er ekki sniðugt að sýna hér enn sem komið er. Til þess að eiga að minnsta kosti til eitt verkefni sem ekki er leyndó og þolir að vera sinnt á almannafæri fitjaði ég upp á þessari ofureinföldu en ofurfínu peysu úr Babystrik pa pinde 3. Garnið er Gepard CottonWool sem ég keypti á útsölu í Litlu Prjónabúðinni á föstudaginn. Mér finnst þessi plómulitur æðislegur og hlakka til að klæða Ósk í nýja peysu, vonandi sem fyrst. 

Ekki fleira í fréttum að sinni - bestu kveðjur til allra :)