Showing posts with label fjölskyldan. Show all posts
Showing posts with label fjölskyldan. Show all posts

Monday, April 14, 2014

fyrstu vorverkin - og töfravettlingar!












Það er ekkert hægt að þræta fyrir það lengur að vorið er komið, mér til mikillar ánægju þar sem þetta er uppáhaldsárstíðin mín. Sólin fer að skína, gróðurinn tekur við sér, páskarnir (mmm, súkkulaði) og afmælið mitt... það er líka svo góð stemming á vorin, enginn kominn með leið á að grilla og allir glaðir þótt það sé gluggaveður. Við drifum okkur út í garð í sólskininu í gær og hófumst handa við að stinga upp, tína rusl, sópa, raka og aðeins snyrta til í garðinum eftir veturinn. Úlfur veit fátt skemmtilegra en að taka þátt í svona brasi og lék á als oddi, of upptekinn til að horfa í myndavélina enda ótrúlega vinnusamur og duglegur miðað við að vera bara á fimmta ári. Ósk fékk í fyrsta sinn að sitja sjálf í grasinu og leika sér, hún dundaði sér þar heillengi og lét ekkert hafa fyrir sér. Næst á dagskrá er svo að fara að sá kryddjurtunum og undirbúa matjurtagarðinn fyrir sumarið.




Alltaf þegar ég prjóna leikskólavettlinga á Úlf enda þeir á því að þæfast og minnka rosalega því þeir blotna í útileik á leikskólanum og eru svo settir á rjúkandi heitan ofn svo þeir nái að þorna (Svo týnast þeir líka alltaf á endanum. Það er eitthvað vettlingasvarthol í alheiminum fullt af vettlingum sem ég hef prjónað á þennan dreng). Ég ákvað að halda áfram að klára kambgarnið í garnbanaáskoruninnni og prjónaði þessa röndóttu vettlinga í minni stærð, náði að klára marga marga pínulitla hnykla sem höfðu verið að þvælast fyrir mér, og svo setti ég þá í þvottavélina og þæfði þar til þeir voru passlegir á Úlf. Úlfur fékk einmitt að fylgjast með. Honum fannst þetta vera mestu töfrar og kallaði þvottavélina bara "Minnkarann", haha. Ég gætti þess að skrifa uppskriftina niður svo ég geti gert fleiri seinna og er fegin því þeir heppnuðust svo vel og eru eiginlega algjört æði. Og þá er líka áskorun mánaðarins frá.

Saturday, February 8, 2014

með hækkandi sól











Maður tekur orðið greinilega eftir því að dagana er farið að lengja og í dag skein sólin loksins heilmikið, hitinn var vel yfir frostmarki og ofsalega falleg birta. Oddur er að fylgja ákveðnu hlaupaplani þessa dagana og átti samkvæmt því að fara 14 km í dag. Við ákváðum að flétta smá fjölskyldugöngutúr inn í hlaupin þannig að við Úlfur og Ósk gengum niður að Ægissíðu og hittum hlauparann okkar þar. Þvílíkt fallegur dagur og Úlfur var svo ánægður að fá að hlaupa um og príla, bara á peysunni, eins og sést vel á myndunum hér að ofan. Ég notaði líka tækifærið og vígði nýju hlaupaskóna mína sem ég keypti fyrr í vikunni. Á morgun er svo fyrsti hlaupadagurinn minn. Ég er mjög spennt að byrja og vona að veðrið verði bara sem oftast eins og í dag ;)



Þegar heim var komið og allir höfðu fengið smá hressingu gafst stutt stund til að prjóna meðan Úlfur sat og dundaði sér með tónlist og litabækur inni í herbergi og Ósk lagði sig. Oddur tók þessa hrikalega krúttlegu mynd af henni og stalst i leiðinni til að taka mynd af mér að prjóna, ég fann hana bara í myndavélinni áðan. Þarna er ég sem sagt að vinna að fjórðu vísbendingu í leynisamprjónssjalinu mínu sem lofar mjög góðu. Ég klára þetta sjal vonandi í næstu viku og get þá farið að nota það, vá hvað ég hlakka til!

Ég vona að þið eigið öll góða og bjarta helgi. A bientot :)

Friday, January 31, 2014

vetrarferð og verk í vinnslu









Skruppum í langa helgarheimsókn norður í Mývatnssveit og áttum ljúfa daga í fjölskyldufaðmi. Eg keyrði ein með börnin eftir kvöldmat á fimmtudag, vel meðvituð um að það gæti orðið að mikilli grenjukeppni, en blessuð börnin sváfu bara og sváfu og ég komst norður með bros á vör á sjö tímum. Almennilegt! Í sveitinni var mest prjónað og farið út að leika auk þess sem við sóttum heim nokkra elskulega vini og vinkonur. Við Hildur systir kíktum svo út í stuttan göngutúr á laugardeginum og þá smellti ég þessum fallegu myndum af vetrarríkinu. 


Ég er með nokkur skemmtileg verk í vinnslu þessa dagana, en mest spennandi af þeim er sjalið Follow Your Arrow eftir Ysoldu Teague sem er ekki bara samprjón með þúsundum annarra prjónara hvaðanæva úr heiminum heldur líka LEYNIprjón þar sem ég fæ senda eina vísbendingu í hverri viku og hef ekki hugmynd um hvernig lokaútgáfa sjalsins mun koma til með að líta út! Mjög nördalegur prjónaspenningur en alveg einlægur, trúið mér. Til að auka enn á spennuna kemur hver vísbending í tveimur útfærslum þannig að það getur skipt miklu uppá útkomuna hvor útfærslan er valin hverju sinni. En þar sem ég vildi að þetta væri svolítið á valdi örlaganna ákvað ég að láta hendingu ráða í hvert sinn í stað þess að velja sjálf. Í fyrstu vísbendingu kastaði ég peningi og fékk B, í annarri vísbendingu kastaði ég teningi og fékk aftur B og í þriðju vísbendingu útbjó ég miðalottó og lét Úlf draga. Á myndinni hér fyrir neðan sést útkoman. 



Og svona lítur sjalið út, núna þegar ég er búin að prjóna þrenn Bjé. Næsta vísbending kemur á mánudaginn og meeeen hvað ég er spennt. 

(Linda vinkona mín náði að smella óborganlegri mynd af mér þegar ég var að fitja upp á sjalinu um daginn og var að einbeita mér rosalega við fyrstu umferðirnar. Prjónið kallar fram ýmsa svipi...)



Ég er enn að vinna að bolnum á fallegu, ljósbláu peysunni og reyni að gera eitthvað smá í henni á hverjum degi. Það er nú ekkert rosalegt stuð að prjóna svona slétt prjón fram og til baka þar til 38.5 cm er náð og þá er langhlaupið málið. Á meðan dunda ég mér við að prjóna lopavettlinga á Odd þar sem hlemmarnir sem ég prjónaði úr afgöngum í nóvember eru þegar allt kemur til alls frekar óþjálir og heldur groddalegir. Þessir áttu reyndar að verða bóndadagsgjöf en enda nú sem mjög síðbúin bóndadagsgjöf í staðinn.

Meira bráðum! Gangi ykkur vel og bestu kveðjur.

Monday, January 6, 2014

síðbúin jólakveðja









Það er kannski fullseint að setja inn jólamyndirnar á þrettándanum en ég ætla að láta það sleppa því ég er búin að vera á leiðinni að græja þetta dögum saman og betra er jú seint en aldrei. Við litla fjölskyldan héldum okkar eigin jól á eigin heimili í fyrsta sinn og það heppnaðist svakalega vel. Gerum það alveg örugglega aftur. Ég naut þess að vera ekkert í prófum og dúllaði mér við að skreyta íbúðina, kveikja á kertum og hlusta á jólatónlist á milli þess sem ég hamaðist í jólagjafaprjóninu og -heklinu.

Mamma var svo sæt að prjóna þennan æðislega jólakjól á Ósk. Uppskriftin heitir að mig minnir Milla og er eftir Döggu í Litlu Prjónabúðinni en mamma keypti garnið einmitt þar, þessa djúsi fjólubláu Pimabómull frá Strikkebogen sem er á óskalistanum hjá mér yfir garn-sem-mig-langar-að-prófa. Kjóllinn hennar Óskar er í stærð 6 mánaða þannig að eins og sést er hann aðeins við vöxt en það er allt í lagi því þá getur hún notað hann heilmikið í vor og sumar. Ég nýtti svo tækifærið á aðfangadag meðan börnin lögðu sig og heklaði eitt pínulítið hárband í stíl.

Ég vona að jólin ykkar hafi verið yndisleg og allir skemmt sér vel. Takk fyrir að fylgjast með blogginu mínu á árinu sem var að líða og megi 2014 verða okkur öllum sem farsælast!

p.s. Ég gleymdi að taka mynd af ÖLLUM jólagjöfunum sem ég prjónaði áður en þær fóru í pakkana. Hahaha. Úps. Spurning um að muna það kannski næst.

Monday, November 25, 2013

í fréttum er þetta helst



Skemmtilegt og einfalt föndur sem sló í gegn hjá unga manninum. Fyrst var var vatnslitað inn í skapalónsteikningar og svo dýrin klippt út og límd á annað blað. 



Systir mín stakk upp á sushigerð á föstudaginn fyrir rúmri viku og ég sló til þrátt fyrir að vera algjör byrjandi sjálf. Hún kenndi mér helstu handtökin og það kom mér á óvart hvað þetta er lítið vesen. Úlfi fannst sushigerðin rosalega spennandi og aðstoðaði heilmikið. Og þó maður geri þetta heima þarf það ekki að vera slappt, allir sem á fengu að bragða voru sammála um að þetta væri engu síðra en á veitingastað! Það besta var að við bjuggum til óheyrilegt magn og því gátum við og kærastarnir borðað okkur algjörlega pakksödd og áttum meira að segja afgang. Nú skil ég bara ekki af hverju ég hafði ekki prófað þetta fyrr... og er byrjuð að plana næsta sushikvöld. 





Eftir veikindin og inniveruna mátti Úlfur loksins fara út um síðustu helgi, allir á heimilinu voru mjög hamingjusamir hvað það varðaði. Við fórum þó hægt af stað og kíktum bara á Kjarvalsstaði á laugardeginum. Þar gat strákurinn hlaupið og ærslast á göngunum (og aðeins í sölunum, úps) á meðan við foreldrarnir kíktum á ljósmyndir Rodchenko og allskonar málverk eftir Kjarval. Mjög skemmtilegar sýningar, mæli með! Í uppáhaldi var þó listasmiðjan sem hefur verið útbúin fyrir krakka en þar er góð aðstaða til að teikna og skoða listaverkabækur. 


Á sunnudeginum var svo í boði að fara út að leika í snjónum. Við notuðum daginn til að taka aðeins til í garðinum, flokka flöskur og dósir, hlúa að pottablómunum okkar og fleira í þeim dúr. Úlfur var alsæll með snjóinn og felldi tár þegar hann þiðnaði tveimur dögum síðar. 



Ég er búin að eiga dálítið strembnar prjónavikur upp á síðkastið, hef t.d. mikið þurft að rekja upp og ekki alltaf verið ánægð með verkefnin mín. Ég setti mér líka dálítið margar jólagjafir fyrir og var komin í stress þannig að ég helmingaði þá áætlun bara - ekkert gaman að gefa heimatilbúnar gjafir ef þær eru ekki búnar til af sannri gleði! En nú virðist prjónalukkan aftur vera orðin mér hliðholl og ég hef verið að klára allskonar skemmtileg verkefni - svo ekki sé minnst á að byrja á allskonar skemmtilegu. Ég heklaði þessa peysu úr lamaull frá Strikkebogen sem fæst í Litlu Prjónabúðinni og get ekki annað en gefið því garni toppeinkunn, alveg dásamlega mjúkt og meðfærilegt og svo eru litirnir mér að skapi. Uppskriftin er í Maríu heklbók og heitir Úlfagull (ég gat ekki annað en gert hana á Úlfagullið mitt!) en ég hef aldrei heklað neitt svona flókið áður og að tala um að þetta hafi verið erfitt lærdómsríkt væri understatement, svo ég sletti. Útkoman er sem betur fer bara nokkuð góð þrátt fyrir svolítið ljót samskeyti (sjást ekki á mynd) og það að peysan er svona tveimur stærðum of stór á barnið (redda því með teygjutvinna í hálsinn og uppbrettum ermum). Að öðru leyti er ég himinlifandi með hana og er strax búin að ákveða að gera aðra (minni). 



Svo var Oddur að biðja um lopavettlinga og þá fannst mér bjóðast fullkomið tækifæri til að nýta plötulopaafganga í verkið. Ég er nú þegar búin með ljótgarnsáskorun Hnoðra og hnykla en þar sem það var í raun aukaáskorun og enn nóg eftir af mánuðinum (og garnbirgðunum, ehemm), henti ég í risastóra lopavettlinga á manninn. Ég prjónaði þá bara upp úr mér og þeir urðu svolítið stórir, en þegar ég hafði orð á því að rekja upp og minnka aðeins tók Oddur það ekki í mál og vildi bara hafa þá svona gerðarlega. Mér finnst þeir bara sætir þegar allt kemur til alls og eitthvað krúttlega jólasveinalegt við litina og stærðina.




Nú eru á prjónunum tvennar jólagjafir sem eðli málsins samkvæmt er ekki sniðugt að sýna hér enn sem komið er. Til þess að eiga að minnsta kosti til eitt verkefni sem ekki er leyndó og þolir að vera sinnt á almannafæri fitjaði ég upp á þessari ofureinföldu en ofurfínu peysu úr Babystrik pa pinde 3. Garnið er Gepard CottonWool sem ég keypti á útsölu í Litlu Prjónabúðinni á föstudaginn. Mér finnst þessi plómulitur æðislegur og hlakka til að klæða Ósk í nýja peysu, vonandi sem fyrst. 

Ekki fleira í fréttum að sinni - bestu kveðjur til allra :)