Skemmtilegt og einfalt föndur sem sló í gegn hjá unga manninum. Fyrst var var vatnslitað inn í skapalónsteikningar og svo dýrin klippt út og límd á annað blað.
Systir mín stakk upp á sushigerð á föstudaginn fyrir rúmri viku og ég sló til þrátt fyrir að vera algjör byrjandi sjálf. Hún kenndi mér helstu handtökin og það kom mér á óvart hvað þetta er lítið vesen. Úlfi fannst sushigerðin rosalega spennandi og aðstoðaði heilmikið. Og þó maður geri þetta heima þarf það ekki að vera slappt, allir sem á fengu að bragða voru sammála um að þetta væri engu síðra en á veitingastað! Það besta var að við bjuggum til óheyrilegt magn og því gátum við og kærastarnir borðað okkur algjörlega pakksödd og áttum meira að segja afgang. Nú skil ég bara ekki af hverju ég hafði ekki prófað þetta fyrr... og er byrjuð að plana næsta sushikvöld.
Eftir veikindin og inniveruna mátti Úlfur loksins fara út um síðustu helgi, allir á heimilinu voru mjög hamingjusamir hvað það varðaði. Við fórum þó hægt af stað og kíktum bara á Kjarvalsstaði á laugardeginum. Þar gat strákurinn hlaupið og ærslast á göngunum (og aðeins í sölunum, úps) á meðan við foreldrarnir kíktum á ljósmyndir Rodchenko og allskonar málverk eftir Kjarval. Mjög skemmtilegar sýningar, mæli með! Í uppáhaldi var þó listasmiðjan sem hefur verið útbúin fyrir krakka en þar er góð aðstaða til að teikna og skoða listaverkabækur.
Á sunnudeginum var svo í boði að fara út að leika í snjónum. Við notuðum daginn til að taka aðeins til í garðinum, flokka flöskur og dósir, hlúa að pottablómunum okkar og fleira í þeim dúr. Úlfur var alsæll með snjóinn og felldi tár þegar hann þiðnaði tveimur dögum síðar.
Ég er búin að eiga dálítið strembnar prjónavikur upp á síðkastið, hef t.d. mikið þurft að rekja upp og ekki alltaf verið ánægð með verkefnin mín. Ég setti mér líka dálítið margar jólagjafir fyrir og var komin í stress þannig að ég helmingaði þá áætlun bara - ekkert gaman að gefa heimatilbúnar gjafir ef þær eru ekki búnar til af sannri gleði! En nú virðist prjónalukkan aftur vera orðin mér hliðholl og ég hef verið að klára allskonar skemmtileg verkefni - svo ekki sé minnst á að byrja á allskonar skemmtilegu. Ég heklaði þessa peysu úr lamaull frá Strikkebogen sem fæst í Litlu Prjónabúðinni og get ekki annað en gefið því garni toppeinkunn, alveg dásamlega mjúkt og meðfærilegt og svo eru litirnir mér að skapi. Uppskriftin er í Maríu heklbók og heitir Úlfagull (ég gat ekki annað en gert hana á Úlfagullið mitt!) en ég hef aldrei heklað neitt svona flókið áður og að tala um að þetta hafi verið erfitt lærdómsríkt væri understatement, svo ég sletti. Útkoman er sem betur fer bara nokkuð góð þrátt fyrir svolítið ljót samskeyti (sjást ekki á mynd) og það að peysan er svona tveimur stærðum of stór á barnið (redda því með teygjutvinna í hálsinn og uppbrettum ermum). Að öðru leyti er ég himinlifandi með hana og er strax búin að ákveða að gera aðra (minni).
Svo var Oddur að biðja um lopavettlinga og þá fannst mér bjóðast fullkomið tækifæri til að nýta plötulopaafganga í verkið. Ég er nú þegar búin með ljótgarnsáskorun Hnoðra og hnykla en þar sem það var í raun aukaáskorun og enn nóg eftir af mánuðinum (og garnbirgðunum, ehemm), henti ég í risastóra lopavettlinga á manninn. Ég prjónaði þá bara upp úr mér og þeir urðu svolítið stórir, en þegar ég hafði orð á því að rekja upp og minnka aðeins tók Oddur það ekki í mál og vildi bara hafa þá svona gerðarlega. Mér finnst þeir bara sætir þegar allt kemur til alls og eitthvað krúttlega jólasveinalegt við litina og stærðina.
Nú eru á prjónunum tvennar jólagjafir sem eðli málsins samkvæmt er ekki sniðugt að sýna hér enn sem komið er. Til þess að eiga að minnsta kosti til eitt verkefni sem ekki er leyndó og þolir að vera sinnt á almannafæri fitjaði ég upp á þessari ofureinföldu en ofurfínu peysu úr Babystrik pa pinde 3. Garnið er Gepard CottonWool sem ég keypti á útsölu í Litlu Prjónabúðinni á föstudaginn. Mér finnst þessi plómulitur æðislegur og hlakka til að klæða Ósk í nýja peysu, vonandi sem fyrst.
Ekki fleira í fréttum að sinni - bestu kveðjur til allra :)
Haha mér finnst pínu fyndið að Úlfur hafi syrgt snjóinn svo svakalega að hann hafi fellt tár!
ReplyDeleteEnvá hvað þú ert öflug í handavinnunni. Ég er einmitt með ofsa margar jólagjafir planaðar en sé ekki aaalveg fram á að klára þær allar með skóla og vinnu. Eftir próf fara hlutirnir að gerast!