Showing posts with label búið og gert!. Show all posts
Showing posts with label búið og gert!. Show all posts

Monday, April 14, 2014

fyrstu vorverkin - og töfravettlingar!












Það er ekkert hægt að þræta fyrir það lengur að vorið er komið, mér til mikillar ánægju þar sem þetta er uppáhaldsárstíðin mín. Sólin fer að skína, gróðurinn tekur við sér, páskarnir (mmm, súkkulaði) og afmælið mitt... það er líka svo góð stemming á vorin, enginn kominn með leið á að grilla og allir glaðir þótt það sé gluggaveður. Við drifum okkur út í garð í sólskininu í gær og hófumst handa við að stinga upp, tína rusl, sópa, raka og aðeins snyrta til í garðinum eftir veturinn. Úlfur veit fátt skemmtilegra en að taka þátt í svona brasi og lék á als oddi, of upptekinn til að horfa í myndavélina enda ótrúlega vinnusamur og duglegur miðað við að vera bara á fimmta ári. Ósk fékk í fyrsta sinn að sitja sjálf í grasinu og leika sér, hún dundaði sér þar heillengi og lét ekkert hafa fyrir sér. Næst á dagskrá er svo að fara að sá kryddjurtunum og undirbúa matjurtagarðinn fyrir sumarið.




Alltaf þegar ég prjóna leikskólavettlinga á Úlf enda þeir á því að þæfast og minnka rosalega því þeir blotna í útileik á leikskólanum og eru svo settir á rjúkandi heitan ofn svo þeir nái að þorna (Svo týnast þeir líka alltaf á endanum. Það er eitthvað vettlingasvarthol í alheiminum fullt af vettlingum sem ég hef prjónað á þennan dreng). Ég ákvað að halda áfram að klára kambgarnið í garnbanaáskoruninnni og prjónaði þessa röndóttu vettlinga í minni stærð, náði að klára marga marga pínulitla hnykla sem höfðu verið að þvælast fyrir mér, og svo setti ég þá í þvottavélina og þæfði þar til þeir voru passlegir á Úlf. Úlfur fékk einmitt að fylgjast með. Honum fannst þetta vera mestu töfrar og kallaði þvottavélina bara "Minnkarann", haha. Ég gætti þess að skrifa uppskriftina niður svo ég geti gert fleiri seinna og er fegin því þeir heppnuðust svo vel og eru eiginlega algjört æði. Og þá er líka áskorun mánaðarins frá.

Monday, March 31, 2014

mánudagur: búið og gert!









Loksins heyrist frá mér! Ég hef verið mjög dul handavinnulega séð undanfarið, allavega hér á alnetinu, því ég tók upp á því að hanna mína allra fyrstu uppskrift með tilheyrandi tímagleypugangi og fyrirhöfn. Flíkin er leyndó enn sem komið er og því lítið af afrakstri til sýnis hér í dag. Ég fékk á sama tíma leið á að vera með mörg verkefni í gangi (ókei, hefði getað sagt mér það fyrirfram en stundum þarf að prófa til að vera viss) og þegar ljósbláa peysan var sett á ís vegna villu í uppskriftinni langaði mig næstum að hætta við þetta alltsaman. Í staðinn ákvað ég að fara í "klára"átak og klára bara sem flest verkefni svo ég geti snúið aftur til einfaldara prjónalífs. 

Fyrst á dagskrá var að klára þessa yndislegu vettlinga þar sem mér var alltaf kalt á höndunum (gömlu orðnir götóttir) og ég var líka viss um að um leið og ég lyki við þetta par kæmi vorið og vettlingar yrðu óþarfir. Veðrið í dag rennir stoðum undir þessa kenningu mína en vettlingarnir eru vel þegnir fyrir því. Uppskriftina er hægt að nálgast í íslenskri þýðingu (sjá Ravelry verkefnið) og ég var rosalega fljót að komast upp á lagið með kaðlaprjónið þrátt fyrir að vera algjör byrjandi á því sviði. Snælda er alveg ótrúlegt garn, þið verið að prófa ef þið hafið ekki gert það nú þegar! Það mýkist um helming í þvotti og verður svona "flöffí" eins og sést á myndunum hér að ofan. Algjör dásemd. 

Ég átti líka eftir að gera afgangaverkefni fyrir marsmánuð. Þar sem mér fannst svo skemmtilegt að prjóna Belluvettlingana og Ósk vantaði einmitt vettlinga (lesist: vettlinga sem hún gæti ekki náð af sér sjálf... barnið er algjör Houdini þegar kemur að því að rífa allt af höndunum á sér) skellti ég í pínulítið Bellupar handa henni. Ég notaði eitthvað ullargarn sem langamma gaf mér. Það var miðalaust þegar ég fékk það svo ég veit ekkert hvaða tegund það er, en ég notaði tvöfalt til að gera vettlingana aðeins stífari. Gerði þá á prjóna 3,5 og fitjaði upp 27 L í stað 35, hafði líka kaðlana þannig að þeir gengu upp í 8 lykkjur en ekki 12. Þess vegna eru þeir aðeins flatari en mínir. Ég er mjög ánægð með þá og finnst gaman að við mæðgur eigum eins :) Og það besta er að barninu virðist enn sem komið ómögulegt að ná þeim af sér. 

Nú er ég bara með fjögur verkefni í gangi: eitt leynisjal í samprjóni (stóðst ekki mátið...), peysuna hans Odds, heklaða langömmuteppið og ljósbláu peysuna. Áfram með klárið! 

Monday, March 3, 2014

mánudagur: búið og gert!







Pattern: Hue, vanter og krave by Lene Holme Samsøe
Published in: Babystrik på pinde
Needles: 2,5 mm og 3 mm

Ég mundi allt í einu í síðustu viku að ég átti alveg eftir að gera verkefni úr afgöngum eða birgðum fyrir febrúarmánuð. Góðgerðateppið var í raun aukaáskorun og ekkert febrúarverkefni enn á prjónunum. Mig hafði lengi langað að gera lítinn kraga á Ósk svo hún þurfi ekki alltaf að vera með lambhúshettu og átti einmitt uppskrift af einum í Babystrik pa pinde og yndislegan bómullar/lambsullarafgang frá Geilsk síðan ég prjónaði röndóttu peysuna hans Úlfs síðasta sumar. Tölurnar keypti ég í Ömmu mús í haust þegar Ósk var alveg glæný og mér fannst þær svo tilvaldar á eitthvert krúttustykki handa henni. Kraginn er í stærð 6-12 mánaða og er svolítið stór á hana ennþá, meira eins og herðaslá reyndar, en voða hlýr og mjúkur og sætur. Svo varð hún 6 mánaða í gær þannig að ætli þetta verði ekki farið að passa bara alltof fljótt *andvarp* Já, tíminn líður!

Monday, February 24, 2014

mánudagur: búið og gert!








Pattern: Follow Your Arrow MKAL by Ysolda Teague
Clues: BBBAA
Needles: 4.0 mm

Loksins, loksins kláraði ég leynisjalið og þegar ég tók það af prjóninum var það svona fimm sinnum flóknara og flottara en ég hafði haldið. Rosalega ánægð með útkomuna, það er svo fínt og hlýtt og mjúkt og alveg einstakt líka. Þetta var fyrsta leyniprjónið og fyrsta samprjónið sem ég tek þátt í og mér fannst þetta mjög gaman, alltaf spennandi að bíða eftir nýrri vísbendingu og sjá hvernig sjölin hjá hinum komu út. Tek alveg bókað þátt í svona aftur. Ég sé það líka eftir á að ég hefði sennilega aldrei þorað að prjóna svona flókið sjalmunstur, hefði bara ekki treyst mér í það. Nú veit ég að ég fer léttilega með það og er strax farin að plana næsta sjal. Af þessu má læra að leyniprjón getur hjálpað manni að komast yfir ranghugmyndir um eigin vankunnáttu :) Ég sé ekki fram á að taka þetta sjal neitt af mér á næstunni. Og nú er ég líka strax byrjuð að efna prjónaáramótaheitið um að gera meira á sjálfa mig. Prjónasjálfselska má alveg vera komin til að vera mín vegna ef ég verð svona ánægð með allt sem ég geri handa mér!

Monday, February 10, 2014

mánudagur: búið og gert!


Granny square afgangateppi til góðs
Garn: Allskonar afgangar, enginn lopi þó
Nál: nr. 4,5
Uppskrift: Ömmuferningur úr Þóru heklbók og dúllur settar saman í síðstu umferð, einnig kennt í Þóru

Ég ákvað á sunnudaginn fyrir rúmri viku að vera með í aukaáskorun Hnoðra og hnykla, þeirri sem snerist um að nýta garnafgangana til góðs, og dró fram ýmsa hnykla sem ég hef verið að vandræðast með auk nokkurra dúll-na (haha) sem hafa orðið afgangs í öðrum teppum. Svo snaraði ég bara fram einu teppi, að vísu voða litlu, á fimm dögum! Mér finnst það hafa tekist prýðilega og þótt það vinni kannski engar teppafegurðarsamkeppnir þá finnst mér einhver sjarmi yfir því. Satt að segja finnst mér það svo krúttlegt að nú langar mig bara að láta verða af því að byrja á einu svona langtímaafgangaheklteppi fyrir mitt eigið heimili. Í öllu falli vona ég að þetta litla teppi hlýji og gleðji einhvern sem á þarf að halda. 



 Bóndadagsvettlingar
Garn: Álafosslopi
Prjónar: nr. 4,5 og 6
Uppskrift: Tveggja þumla karlmannsvettlingar eftir Kristínu Harðardóttur

Þessi síðbúna bóndadagsgjöf var svo kláruð um helgina. Oddur er glaður með þá og ég er glöð með þá og svei mér þá ef vettlingarnir eru ekki bara svolítið glaðir með sjálfa sig. Ég breytti mynstrinu aðeins, langaðI að hafa það svona þykkt. Svo hafði ég bara tvo þumla alls... fannst fjórir eitthvað fullvel í lagt að þessu sinni. Uppskriftina er hægt að kaupa staka í Handprjónasambandinu fyrir slikk. 

Annars hef ég tekið eftir auknum fjölda heimsókna upp á síðkastið og þakka kærlega fyrir innlitið! 
Bestu kveðjur, sæl að sinni :)

Monday, January 20, 2014

mánudagur: búið og gert!

Ljúf helgi að baki, ég fór til dæmis aðeins í Litlu Prjónabúðina þar sem ég prjónaði með Lindu vinkonu minni, kynntist mörgum skemmtilegum prjónurum/heklurum og rakst á ýmsa kunningja sem gaman var að spjalla við. Ég byrjaði líka að prjóna fyrstu vísbendinguna í leynisamprjóni Isoldu Teague, segi ykkur meira frá því bráðum, og tók til í geymslunni minni sem var mjög þarft verk. Verðlaun fyrir að nenna því voru að sjálfsögðu ísferð í Valdís og svo að geta opnað geymsluna á þriggja mínútna fresti í dag til að dást að allri reiðunni og skipulaginu. Ahhh. 


Needle: 3.5 mm
Size: 6 months

Ég kláraði plómulitu peysuna handa Ósk í síðustu viku og finnst hún fara henni svakalega vel, er það annars bara ég eða bliknar blessuð peysan ekki alveg í návist þessarar fallegu stelpu? 

Varð nú svolítið leið á henni (peysunni, erfitt að fá leið á Ósk) þar sem þetta var bara garðaprjón eftir annars mjög skemmtilega útaukningu í laskakaðlinum. En ég setti undir mig hausinn og er mjög fegin því mikið finnst mér hún fín. Tölurnar fengust í Litlu Prjónabúðinni og setja alveg punktinn yfir i-ið, en peysan er ennþá það stór að það þarf að bretta upp ermar þannig að hún á eftir að duga lengi.  Ég studdist við nýju Prjónabiblíuna til að finna fallega leið til að sauma saman undir ermum og er mjög ánægð með útkomuna. Batnandi konu er best að lifa og ég ÆTLA að verða snillingur í fallegum frágangi. 





Henti líka í eitt afgangaverkefni fyrir garnbanaáskorunina góðu en fyrir valinu urðu heklaðir slefmekkir þar sem Ósk er að fá fyrstu tönnina og slefar alveg eins og óð kona. Liggur við að maður sé að hekla undan straumnum! 


Pattern: Kría eftir Tinnu Þórudóttur Þorvaldsdóttur, með smá breytingum sem ég sá á facebooksíðu hennar einhverntímann fyrir jól
Yarn: Fashion IRO dk og ýmsir afgangar
Hook: 2.5 mm



Lykillinn er að hekla frekar þétt og hafa bara 2 ll í upphafi hverrar umferðar í stað 3 ll eins og segir í sjaluppskriftinni. Ég er mjög ánægð með hvernig þetta tókst til hjá mér og gæti alveg hugsað mér að henda stundum í svona smekki til dæmis í sængurgjafir og svoleiðis. Annars er ég að pæla í að taka líka þátt í aukaáskoruninni sem er fyrir góðan málstað, endilega kíkið á það ef þið getið! Meira um það hér. Ég á alveg fullt af kambgarni ennþá sem væri fullkomið í fallegt og hlýtt teppi fyrir þá sem ekki eru jafn heppnir og litla ég (en mikið vildi ég að allir í heiminum væru jafn heppnir, ég segi það satt!).

Þar til næst - hafið það gott!