Monday, April 14, 2014

fyrstu vorverkin - og töfravettlingar!












Það er ekkert hægt að þræta fyrir það lengur að vorið er komið, mér til mikillar ánægju þar sem þetta er uppáhaldsárstíðin mín. Sólin fer að skína, gróðurinn tekur við sér, páskarnir (mmm, súkkulaði) og afmælið mitt... það er líka svo góð stemming á vorin, enginn kominn með leið á að grilla og allir glaðir þótt það sé gluggaveður. Við drifum okkur út í garð í sólskininu í gær og hófumst handa við að stinga upp, tína rusl, sópa, raka og aðeins snyrta til í garðinum eftir veturinn. Úlfur veit fátt skemmtilegra en að taka þátt í svona brasi og lék á als oddi, of upptekinn til að horfa í myndavélina enda ótrúlega vinnusamur og duglegur miðað við að vera bara á fimmta ári. Ósk fékk í fyrsta sinn að sitja sjálf í grasinu og leika sér, hún dundaði sér þar heillengi og lét ekkert hafa fyrir sér. Næst á dagskrá er svo að fara að sá kryddjurtunum og undirbúa matjurtagarðinn fyrir sumarið.




Alltaf þegar ég prjóna leikskólavettlinga á Úlf enda þeir á því að þæfast og minnka rosalega því þeir blotna í útileik á leikskólanum og eru svo settir á rjúkandi heitan ofn svo þeir nái að þorna (Svo týnast þeir líka alltaf á endanum. Það er eitthvað vettlingasvarthol í alheiminum fullt af vettlingum sem ég hef prjónað á þennan dreng). Ég ákvað að halda áfram að klára kambgarnið í garnbanaáskoruninnni og prjónaði þessa röndóttu vettlinga í minni stærð, náði að klára marga marga pínulitla hnykla sem höfðu verið að þvælast fyrir mér, og svo setti ég þá í þvottavélina og þæfði þar til þeir voru passlegir á Úlf. Úlfur fékk einmitt að fylgjast með. Honum fannst þetta vera mestu töfrar og kallaði þvottavélina bara "Minnkarann", haha. Ég gætti þess að skrifa uppskriftina niður svo ég geti gert fleiri seinna og er fegin því þeir heppnuðust svo vel og eru eiginlega algjört æði. Og þá er líka áskorun mánaðarins frá.

1 comment: