Monday, March 31, 2014

mánudagur: búið og gert!









Loksins heyrist frá mér! Ég hef verið mjög dul handavinnulega séð undanfarið, allavega hér á alnetinu, því ég tók upp á því að hanna mína allra fyrstu uppskrift með tilheyrandi tímagleypugangi og fyrirhöfn. Flíkin er leyndó enn sem komið er og því lítið af afrakstri til sýnis hér í dag. Ég fékk á sama tíma leið á að vera með mörg verkefni í gangi (ókei, hefði getað sagt mér það fyrirfram en stundum þarf að prófa til að vera viss) og þegar ljósbláa peysan var sett á ís vegna villu í uppskriftinni langaði mig næstum að hætta við þetta alltsaman. Í staðinn ákvað ég að fara í "klára"átak og klára bara sem flest verkefni svo ég geti snúið aftur til einfaldara prjónalífs. 

Fyrst á dagskrá var að klára þessa yndislegu vettlinga þar sem mér var alltaf kalt á höndunum (gömlu orðnir götóttir) og ég var líka viss um að um leið og ég lyki við þetta par kæmi vorið og vettlingar yrðu óþarfir. Veðrið í dag rennir stoðum undir þessa kenningu mína en vettlingarnir eru vel þegnir fyrir því. Uppskriftina er hægt að nálgast í íslenskri þýðingu (sjá Ravelry verkefnið) og ég var rosalega fljót að komast upp á lagið með kaðlaprjónið þrátt fyrir að vera algjör byrjandi á því sviði. Snælda er alveg ótrúlegt garn, þið verið að prófa ef þið hafið ekki gert það nú þegar! Það mýkist um helming í þvotti og verður svona "flöffí" eins og sést á myndunum hér að ofan. Algjör dásemd. 

Ég átti líka eftir að gera afgangaverkefni fyrir marsmánuð. Þar sem mér fannst svo skemmtilegt að prjóna Belluvettlingana og Ósk vantaði einmitt vettlinga (lesist: vettlinga sem hún gæti ekki náð af sér sjálf... barnið er algjör Houdini þegar kemur að því að rífa allt af höndunum á sér) skellti ég í pínulítið Bellupar handa henni. Ég notaði eitthvað ullargarn sem langamma gaf mér. Það var miðalaust þegar ég fékk það svo ég veit ekkert hvaða tegund það er, en ég notaði tvöfalt til að gera vettlingana aðeins stífari. Gerði þá á prjóna 3,5 og fitjaði upp 27 L í stað 35, hafði líka kaðlana þannig að þeir gengu upp í 8 lykkjur en ekki 12. Þess vegna eru þeir aðeins flatari en mínir. Ég er mjög ánægð með þá og finnst gaman að við mæðgur eigum eins :) Og það besta er að barninu virðist enn sem komið ómögulegt að ná þeim af sér. 

Nú er ég bara með fjögur verkefni í gangi: eitt leynisjal í samprjóni (stóðst ekki mátið...), peysuna hans Odds, heklaða langömmuteppið og ljósbláu peysuna. Áfram með klárið! 

5 comments:

  1. wow those are so pretty! and the tiny version, so cute!

    ReplyDelete
  2. fallegir vettlingar, ég hef ekki enn hætt mér út í það að prufa kaðla

    ReplyDelete
    Replies
    1. Takk! Mér finnst mjög svipað að búa til kaðla og blúndu í prjóni. Álíka ávanabindandi líka :)

      Delete
  3. Æðislegir! Og flottir á Ósk. Gott að þú ert með í leyninu… sjáumst við ekki á fimmtudaginn (síðasta vika var crazy pie með rjóma hjá mér… kem í þetta sinn!)

    ReplyDelete
    Replies
    1. Já ég hlakka til að sjá þig á fimmtudaginn og sjá eitthvað af öllu gula prjóninu þínu :)

      Delete