Tuesday, June 4, 2013

garðyrkjuáhugi á grunnstigi




Ég hef nánast enga reynslu af garðrækt, annað en þetta helsta: Ég kann að slá gras og vökva með vökvukönnu og er svona þokkaleg í að reita arfa og tína rabbarbara... en þar með er kunnátta mín nokkurn veginn upptalin. Það má því segja að ég sé algjör byrjandi. Mér finnst samt frekar gaman að vinna í garðinum og kippi mér ekkert upp við að verða skítug, tregðan við afrek á þessu sviði stafar af rótgróinni og fullkomlega stjórnlausri pödduhræðslu minni sem á það til að standa í vegi fyrir því að ég komi nálægt beðum og runnum þar sem köngulær og geitungar eru á hverju strái. (Bókstaflega). 

En ég á stóran og fínan garð hér í Gamla Vesturbænum og því algjör synd að ég skuli ekki vera duglegri að vinna í honum. Við erum reyndar dálítið dugleg að slá grasið en það telst nú varla mikil garðrækt! Í fyrra gaf nágranni minn Úlfar mér jarðaberjaplöntu (hann og konan hans eru garðræktarsnillingar) sem mér tókst að hlúa nægilega að til að eignast í sumarlok tvö lítil jarðarber sem voru auðvitað himnesk á bragðið. Nú höfum við prófað að setja niður kartöflur og gulrætur og verðum bara að sjá til hvernig uppskeran tekst. Höfum allavega lítið þurft að hafa áhyggjur af því að vökva eins og veðrið hefur verið, ehemm, en ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvernig plönturnar sem koma upp eiga að vera og væri vís til að reita þær í burtu, haldandi að þær væru arfi. Ég er það glórulaus hvað þetta varðar. 

En þetta er a.m.k. í startholunum hjá mér, auk kryddjurtaræktarinnar í gluggakistunni auðvitað, og einhvern daginn verð ég kannski jafn dugleg og klár í garðstörfum eins og nágrannar mínir og allt fólkið í þáttunum hennar Gurrýjar í garðinum, sem sýndir eru á þriðjudagskvöldum á RÚV. Það eru mjög skemmtilegir og áhugaverðir þættir sé maður skápagarðyrkjuunnandi eins og ég. Hef nú þegar lært meira af þessum þáttum en nokkrum matreiðsluþætti sem ég hef séð... þegar ég pæli í því er óskiljanlegt hvers vegna alltaf er verið að gera þessa matreiðsluþætti en ekki kenna fólki að rækta sinn eigin mat. Miklu gagnlegra!

No comments:

Post a Comment