Saturday, August 10, 2013

kjúklingabaunir: hagkvæmni og hollusta


Hér á bæ verðum við sífellt áhugasamari um hollt mataræði (og skemmtilega hreyfingu, en það er efni í aðra færslu seinna), að hluta til vegna þess að heimilisfaðirinn er viðkvæmur í maganum en líka vegna þess að eftir því sem við höfum fullorðnast og sjóast í barnauppeldi komumst við betur og betur að því hvað hollur og góður matur gerir öllum gott, bæði í lund og skrokk. Svo eru bein tengsl á milli umhverfismeðvitundar og valkosta í mataræði, t.d. hvar fæðan er framleidd, hversu langt hún er flutt og hvaða efni eru notuð við framleiðsluna og þetta er eitthvað sem við reynum að pæla í. 

Þegar við vorum að byrja að velja hollari fæðu fyrir svona ári síðan fannst okkur áberandi að flestar heilsuvörur eða hollari kostir væru margfalt dýrari en það sem við höfðum áður verið að kaupa. Verandi bæði námsmenn völdum við áður yfirleitt það alódýrasta í Bónus sem er Euroshopper pasta, niðursuðuvörur og gjarnan unnan kjöt- og fiskvörur. Svo ekki sé minnst á pakkanúðlur! En þetta er allt meira og minna fullt af hvítu hveiti og hvítum sykri, geri, aukaefnum og rotvarnarefnum og bara öllu sem einkennir fæðu sem er komin langt frá uppruna sínum. Þannig að við vorum lengi framan af, og erum að mörgu leyti enn, að læra að kaupa inn hollustu án þess að fara á hausinn. Veraldarvefurinn geymir auðvitað hafsjó af fróðleik og á Cafe Sigrun má finna mörg góð ráð, sér í lagi þessi hérna um hvað sé hægt að gera til að draga úr kostnaði en borða samt hollan og lítið unninn mat. 

Á heimasíðu Himneskt má líka finna ágæta fræðslu um hagkvæmni og hollustu, auk þess sem vörurnar þeirra eru til sölu í Bónus og margar hverjar ekkert svo dýrar. Við kaupum oft þessar vörur, t.d. speltið og vínsteinslyftiduftið sem kosta frekar lítið miðað við hvað er hægt að búa til margt gott úr því. Þá getum við bakað okkar eigið brauð og sjálf búið til kökur, kex og pizzur sem er sko miklu ódýrara en að kaupa það úti í bakarí eða á skyndibitastöðum. Annað sem er ekki dýrt er ferskt grænmeti og ávextir, ég kaupi rosalega mikið af því vegna þess að maður getur fengið svo mikið magn fyrir svo fáar krónur. Og svo, það sem þessi færsla átti upphaflega að vera um, er upplagt að vera dugleg að nota baunir því þær eru svo frábærar í allskonar rétti og ekkert dýrar þegar maður kaupir fullan poka og eldar sjálfur. Um daginn suðum við fullan pott af lífrænum kjúklingabaunum og bjuggum svo til tvölfaldan skammt af buffum, einn til að borða um kvöldið og annan til að frysta og eiga sem fljótlega máltíð í frystinum. Þó áttum við nægan afgang af baunum til að fyrsta tvo skammta sem er svo hægt að henda út í súpur og pottrétti og samt var nóg eftir til að búa til dásamlegan hummus. Hagkvæmnin í hámarki! 

Ég tók þessa mynd hér að ofan af buffunum því mér fannst þau svo falleg á litinn. Uppskriftina fékk ég í gömlu Hagkaupsbókinni eftir Sólveigu Eiríksdóttur, Grænn kostur Hagkaupa, sem er held ég ófáanleg í dag nema í fornbókasölu. Þau voru dásamlega góð og ekkert flókin eldamennska:

Kjúklingabaunaborgarar

3 dl soðnar kjúklingabaunir
2 stk soðnar kartöflur
2 msk kartöflumjöl (ég notaði maísmjöl)
1 stk meðalstór blaðlaukur
1 hvítlauksrif
1 msk rifinn sítrónubörkur
2 tsk karri
hnefi af ferskri steinselju
smá sjávarsalt og nýmalaður pipar

rasp: 
smá maísmjöl
smá spelt
nokkrar rósmarínnálar (ég sleppti þeim)

Stappið soðnu kjúklingabaunirnar og kartöflurnar. Saxið blaðlauk, hvítlauk og steinselju smátt og rífið sítrónubörk. Setjið allt í hrærivél og hrærið saman. Mótið 8 borgara, veltið þeim upp úr raspinu og látið standa í ísskáp smá stund. Hitið olíu á pönnu og steikið borgarana í um 2 mín á hvorri hlið, eða þar til þeir verða gylltir og flottir.

 Hér er líka ein frábær uppskrift sem ég ætla líka að prófa bráðum. Þetta er að verða dálítil langloka hjá mér núna og best að hætta í bili. Eigið góða helgi!

No comments:

Post a Comment