Showing posts with label ferðalög. Show all posts
Showing posts with label ferðalög. Show all posts

Friday, January 31, 2014

vetrarferð og verk í vinnslu









Skruppum í langa helgarheimsókn norður í Mývatnssveit og áttum ljúfa daga í fjölskyldufaðmi. Eg keyrði ein með börnin eftir kvöldmat á fimmtudag, vel meðvituð um að það gæti orðið að mikilli grenjukeppni, en blessuð börnin sváfu bara og sváfu og ég komst norður með bros á vör á sjö tímum. Almennilegt! Í sveitinni var mest prjónað og farið út að leika auk þess sem við sóttum heim nokkra elskulega vini og vinkonur. Við Hildur systir kíktum svo út í stuttan göngutúr á laugardeginum og þá smellti ég þessum fallegu myndum af vetrarríkinu. 


Ég er með nokkur skemmtileg verk í vinnslu þessa dagana, en mest spennandi af þeim er sjalið Follow Your Arrow eftir Ysoldu Teague sem er ekki bara samprjón með þúsundum annarra prjónara hvaðanæva úr heiminum heldur líka LEYNIprjón þar sem ég fæ senda eina vísbendingu í hverri viku og hef ekki hugmynd um hvernig lokaútgáfa sjalsins mun koma til með að líta út! Mjög nördalegur prjónaspenningur en alveg einlægur, trúið mér. Til að auka enn á spennuna kemur hver vísbending í tveimur útfærslum þannig að það getur skipt miklu uppá útkomuna hvor útfærslan er valin hverju sinni. En þar sem ég vildi að þetta væri svolítið á valdi örlaganna ákvað ég að láta hendingu ráða í hvert sinn í stað þess að velja sjálf. Í fyrstu vísbendingu kastaði ég peningi og fékk B, í annarri vísbendingu kastaði ég teningi og fékk aftur B og í þriðju vísbendingu útbjó ég miðalottó og lét Úlf draga. Á myndinni hér fyrir neðan sést útkoman. 



Og svona lítur sjalið út, núna þegar ég er búin að prjóna þrenn Bjé. Næsta vísbending kemur á mánudaginn og meeeen hvað ég er spennt. 

(Linda vinkona mín náði að smella óborganlegri mynd af mér þegar ég var að fitja upp á sjalinu um daginn og var að einbeita mér rosalega við fyrstu umferðirnar. Prjónið kallar fram ýmsa svipi...)



Ég er enn að vinna að bolnum á fallegu, ljósbláu peysunni og reyni að gera eitthvað smá í henni á hverjum degi. Það er nú ekkert rosalegt stuð að prjóna svona slétt prjón fram og til baka þar til 38.5 cm er náð og þá er langhlaupið málið. Á meðan dunda ég mér við að prjóna lopavettlinga á Odd þar sem hlemmarnir sem ég prjónaði úr afgöngum í nóvember eru þegar allt kemur til alls frekar óþjálir og heldur groddalegir. Þessir áttu reyndar að verða bóndadagsgjöf en enda nú sem mjög síðbúin bóndadagsgjöf í staðinn.

Meira bráðum! Gangi ykkur vel og bestu kveðjur.

Monday, August 12, 2013

tjaldútilega í hrunamannahreppi














































Eins og sjá má var margt brallað í útilegu í Hrunamannahreppi um Verslunarmannahelgina, og í ýmiss konar veðri líka! Við ókum upp að Gullfossi snemma um morgun til að ná á undan ferðamannahópum en þá var svo þungskýjað og hvasst að allar myndirnar líta út fyrir að hafa verið teknar í næturþoku. Það hafði strax birt stuttu seinna þegar við sáum Strokk í allri sinni dýrð (mjög spennandi fyrir barn á fjórða ári) og tókum stutta göngu um Geysissvæðið. Við tókum reyndar líka stutta göngu um Geysisverslunina sem er ótrúlega flott, en þar fann Úlfur þessa rosalega víkingahjálma og sverð. Hann margmátaði góssið fyrir framan spegilinn og hætti ekki fyrr en hann fékk pabba sinn með sér í grínið. Ég tók mynd til sönnunar. 

Annað sem stóð upp úr var heimsókn í Slakka. Ég fékk að halda á pínulitlum hvolpi og langaði auðvitað að taka hann með heim... reyndar líka kanínurnar sem voru voðalega sætar og alveg gefins og allt. Svo fórum við líka á lífrænan grænmetismarkað í Laugarási hjá þeim í Engi þar sem við keyptum fullt af grænmeti til að eiga í bílnum sem snarl. Það kláraðist reyndar svo fljótt að við þurftum að koma aftur til að eiga nóg til að taka með heim! Virkilega skemmtilegur staður, Úlfur lék sér á grónu útisvæði allan tímann og ilmurinn af kryddjurtum fyllti loftið í sólskininu. Á leiðinni heim komum við líka við á Sólheimum en höfðum lítinn tíma til að skoða okkur um. Sem var miður því þar er margt skemmtilegt að skoða og svæðið mjög aðlaðandi, við lofuðum sjálfum því við brottför að gera út dagsferð þangað bráðlega. 

Thursday, August 8, 2013

eitt og annað frá síðustu dögum

Ætlaði að blogga með mörgum myndum frá síðustu dögum, enda af nægu myndefni að taka, en ég finn ekki myndavélina og grunar að hún sé enn í bílnum frá því við fjölskyldan fórum í útilegu um Verslunarmannahelgina. Ég ákvað að prófa að sofa í tjaldi þrátt fyrir að komin vel á níunda mánuð meðgöngu og það gekk bara vel! Kannski ekki málið fyrir þær sem eru með bak- eða grindarvandamál en þar sem ég er svo ljónheppin að vera alveg laus við alla meðgöngukvilla var þetta ekkert mál. Því til sönnunar tók Oddur af mér símamynd, nývaknaðri í tjaldinu - rosalega er annars gaman að gista í tjaldi! Ég held ég verði aldrei ein af þeim sem nennir að draga á eftir mér fellihýsi eða svoleiðis. Kannski þegar ég verð gömul?


Úlfur naut útilegunnar líka í botn og fannst þetta allt geðveikt spennandi. Það var nú eiginlega best af öllu. Ég hlakka til að setja inn myndir (þegar ég er búin að finna þær) því við skoðuðum margt skemmtilegt, fórum t.d. í túristaleik við Gullfoss og Geysi, kíktum í dýragarðinn í Slakka og á grænmetismarkaði í Laugarási. Ég heimsótti líka Hespuhúsið við Andakílsárvirkjun þar sem hún Guðrún handlitar garn - hvílík paradís fyrir garnáhugamanneskju! Mæli með heimsókn þangað og læt eina instamynd fylgja með til freistingar. 


Ég keypti að sjálfsögðu smá garn og er byrjuð að prjóna úr því. Deili með ykkur bráðum en satt að segja er þetta smá leyniverkefni og verður því að bíða birtingar enn um sinn. 
Mig langar líka að þakka fyrir heimsóknirnar hingað á bloggið - þeim fer smám saman fjölgandi og mér þykir afskaplega vænt um það. Takk fyrir komuna :) Ég lofa mörgum spennandi færslum framundan!

Sunday, July 28, 2013

ævintýraleg ferð að Hvaleyrarvatni












Við erum svo heppin að eiga frábæra vini í Hafnarfirði, þau Bergrúnu (sem á Óskalistabloggið fína), Andra og Darra Frey og þar sem heimsókn hafði lengi staðið til var ákveðið að við myndum kíkja öll saman upp að Hvaleyrarvatni sem er bara nánast í bakgarðinum hjá þeim. Veðurblíðan var með eindæmum og þarna var mikil "útlandastemming" með hálfnöktum börnum að baða sig og hálfnöktum foreldrum að sóla sig. Úlfur var alsæll með vatnsbuslið og það er ljóst að þarna þarf maður að koma aftur. Síðan ég flutti til Reykjavíkur fyrir næstum tíu árum hef ég verið ógurlega léleg að skoða náttúruna og nærumhverfið hérna á höfuðborgarsvæðinu. Það stendur til bóta og ég mæli með ævintýraferð að Hvaleyrarvatni :) 

Thursday, July 18, 2013

viðeyjarævintýri







Eftir ljúft hálfs mánaðar sumarfrí í Mývatnssveit, hvar slakt netsamband og almenn afslöppun bauð ekki upp á mikla bloggvirkni, erum við mæðgin komin aftur í bæinn. Í gær vorum við svo heppin að skreppa út í Viðey með vinum okkar, þangað hafði ég aldrei komið og Úlfur ekki heldur. Hélt einhvernveginn að þetta væri lengra í burtu en svo er þetta algjör skottúr og kostar bara 1100 kr fyrir fullorðna, það er nú ekki mikið. Veðrið lék við okkur og þetta var þvílíkur dásemdardagur með nestisferð, róló, gönguferð og fjörukönnun - allt á einni eyju!