Fjársjóður í gluggakistunni minni: Kóríander, steinselja og graslaukur. |
Ég elska ferskar kryddjurtir en get ekki sagt að ég elski hvað þær kosta rosalega mikið úti í búð. Svo notar maður heldur aldrei allan pakkann og endar alltaf á því að henda dýrmætri restinni af því hún er farin að skemmast og orðin brún og slepjuleg. Hins vegar er bæði fáránlega ódýrt og auðvelt að rækta sínar eigin kryddjurtir. Ég prófaði það fyrst fyrir tveimur árum og varð satt að segja bara hissa hvað þetta er auðvelt, sérstaklega sum krydd eins og kóríander, steinselja og graslaukur. Hef heyrt að mynta sé líka ekkert mál og ætla að prófa bráðum.
Eina sem þarf eru gamlar dollur og krukkur, smá gróðurmold og fræ. Á fræpökkunum eru góðar leiðbeiningar um hvernig á að sá þeim. Svo spreyjar maður bara öðru hverju með spreybrúsa til að halda moldinni rakri og setur plastfilmu yfir meðan litlu sprotarnir eru að komast upp úr moldinni. Þegar þeir eru komnir upp eru þeir settir í stærri pott (sem ég ætla að gera síðar í vikunni) og þá fyrst fer allt á fullt - maður hefur án gríns ekki undan að borða allt kryddið sitt! Sumir setja plönturnar út, það er til dæmis sniðugt með graslauk, en það er líka alveg hægt að hafa þetta bara áfram í sólríkum glugga.
Svo eru fallegar grænar kryddjurtir eru ekki bara gómsætar heldur líka heimilisprýði:
(Uppruna allra þessara mynda má finna í eldhúsmöppunni á Pinterest-svæðinu mínu).
Fallegt! Ég er hjartanlega sammála og samtaka, er einmitt að rækta hinar ýmsu kryddjurtir í glugganum mínum. Leyfði krökkunum að hjálpa við að telja fræin ofaní pottana. Svo fylgjumst við vel með því hvernig gengur á hverjum degi.
ReplyDeleteGóða kryddjurtagluggaræktun!