Monday, January 6, 2014

síðbúin jólakveðja









Það er kannski fullseint að setja inn jólamyndirnar á þrettándanum en ég ætla að láta það sleppa því ég er búin að vera á leiðinni að græja þetta dögum saman og betra er jú seint en aldrei. Við litla fjölskyldan héldum okkar eigin jól á eigin heimili í fyrsta sinn og það heppnaðist svakalega vel. Gerum það alveg örugglega aftur. Ég naut þess að vera ekkert í prófum og dúllaði mér við að skreyta íbúðina, kveikja á kertum og hlusta á jólatónlist á milli þess sem ég hamaðist í jólagjafaprjóninu og -heklinu.

Mamma var svo sæt að prjóna þennan æðislega jólakjól á Ósk. Uppskriftin heitir að mig minnir Milla og er eftir Döggu í Litlu Prjónabúðinni en mamma keypti garnið einmitt þar, þessa djúsi fjólubláu Pimabómull frá Strikkebogen sem er á óskalistanum hjá mér yfir garn-sem-mig-langar-að-prófa. Kjóllinn hennar Óskar er í stærð 6 mánaða þannig að eins og sést er hann aðeins við vöxt en það er allt í lagi því þá getur hún notað hann heilmikið í vor og sumar. Ég nýtti svo tækifærið á aðfangadag meðan börnin lögðu sig og heklaði eitt pínulítið hárband í stíl.

Ég vona að jólin ykkar hafi verið yndisleg og allir skemmt sér vel. Takk fyrir að fylgjast með blogginu mínu á árinu sem var að líða og megi 2014 verða okkur öllum sem farsælast!

p.s. Ég gleymdi að taka mynd af ÖLLUM jólagjöfunum sem ég prjónaði áður en þær fóru í pakkana. Hahaha. Úps. Spurning um að muna það kannski næst.

No comments:

Post a Comment