Skruppum í langa helgarheimsókn norður í Mývatnssveit og áttum ljúfa daga í fjölskyldufaðmi. Eg keyrði ein með börnin eftir kvöldmat á fimmtudag, vel meðvituð um að það gæti orðið að mikilli grenjukeppni, en blessuð börnin sváfu bara og sváfu og ég komst norður með bros á vör á sjö tímum. Almennilegt! Í sveitinni var mest prjónað og farið út að leika auk þess sem við sóttum heim nokkra elskulega vini og vinkonur. Við Hildur systir kíktum svo út í stuttan göngutúr á laugardeginum og þá smellti ég þessum fallegu myndum af vetrarríkinu.
Ég er með nokkur skemmtileg verk í vinnslu þessa dagana, en mest spennandi af þeim er sjalið Follow Your Arrow eftir Ysoldu Teague sem er ekki bara samprjón með þúsundum annarra prjónara hvaðanæva úr heiminum heldur líka LEYNIprjón þar sem ég fæ senda eina vísbendingu í hverri viku og hef ekki hugmynd um hvernig lokaútgáfa sjalsins mun koma til með að líta út! Mjög nördalegur prjónaspenningur en alveg einlægur, trúið mér. Til að auka enn á spennuna kemur hver vísbending í tveimur útfærslum þannig að það getur skipt miklu uppá útkomuna hvor útfærslan er valin hverju sinni. En þar sem ég vildi að þetta væri svolítið á valdi örlaganna ákvað ég að láta hendingu ráða í hvert sinn í stað þess að velja sjálf. Í fyrstu vísbendingu kastaði ég peningi og fékk B, í annarri vísbendingu kastaði ég teningi og fékk aftur B og í þriðju vísbendingu útbjó ég miðalottó og lét Úlf draga. Á myndinni hér fyrir neðan sést útkoman.
Og svona lítur sjalið út, núna þegar ég er búin að prjóna þrenn Bjé. Næsta vísbending kemur á mánudaginn og meeeen hvað ég er spennt.
(Linda vinkona mín náði að smella óborganlegri mynd af mér þegar ég var að fitja upp á sjalinu um daginn og var að einbeita mér rosalega við fyrstu umferðirnar. Prjónið kallar fram ýmsa svipi...)
Ég er enn að vinna að bolnum á fallegu, ljósbláu peysunni og reyni að gera eitthvað smá í henni á hverjum degi. Það er nú ekkert rosalegt stuð að prjóna svona slétt prjón fram og til baka þar til 38.5 cm er náð og þá er langhlaupið málið. Á meðan dunda ég mér við að prjóna lopavettlinga á Odd þar sem hlemmarnir sem ég prjónaði úr afgöngum í nóvember eru þegar allt kemur til alls frekar óþjálir og heldur groddalegir. Þessir áttu reyndar að verða bóndadagsgjöf en enda nú sem mjög síðbúin bóndadagsgjöf í staðinn.
Meira bráðum! Gangi ykkur vel og bestu kveðjur.
No comments:
Post a Comment