Saturday, February 8, 2014

með hækkandi sól











Maður tekur orðið greinilega eftir því að dagana er farið að lengja og í dag skein sólin loksins heilmikið, hitinn var vel yfir frostmarki og ofsalega falleg birta. Oddur er að fylgja ákveðnu hlaupaplani þessa dagana og átti samkvæmt því að fara 14 km í dag. Við ákváðum að flétta smá fjölskyldugöngutúr inn í hlaupin þannig að við Úlfur og Ósk gengum niður að Ægissíðu og hittum hlauparann okkar þar. Þvílíkt fallegur dagur og Úlfur var svo ánægður að fá að hlaupa um og príla, bara á peysunni, eins og sést vel á myndunum hér að ofan. Ég notaði líka tækifærið og vígði nýju hlaupaskóna mína sem ég keypti fyrr í vikunni. Á morgun er svo fyrsti hlaupadagurinn minn. Ég er mjög spennt að byrja og vona að veðrið verði bara sem oftast eins og í dag ;)



Þegar heim var komið og allir höfðu fengið smá hressingu gafst stutt stund til að prjóna meðan Úlfur sat og dundaði sér með tónlist og litabækur inni í herbergi og Ósk lagði sig. Oddur tók þessa hrikalega krúttlegu mynd af henni og stalst i leiðinni til að taka mynd af mér að prjóna, ég fann hana bara í myndavélinni áðan. Þarna er ég sem sagt að vinna að fjórðu vísbendingu í leynisamprjónssjalinu mínu sem lofar mjög góðu. Ég klára þetta sjal vonandi í næstu viku og get þá farið að nota það, vá hvað ég hlakka til!

Ég vona að þið eigið öll góða og bjarta helgi. A bientot :)

2 comments: