Tuesday, February 4, 2014

barnaherbergi










Ég er þessa dagana aðeins að breyta í herberginu hans Úlfs og finnst mjög gott að skoða myndir af fallegum barnaherbergjum á netinu til þess að fá innblástur í verkið. Þetta eru svo sem engar rosalegar breytingar sem ég er að gera, aðallega að flokka aðeins leikföngin og fækka þeim. Í svona litlum herbergjum eins og hann á er það alveg nauðsynlegt. Það er líka eins og hann leiki sér meira ef valmöguleikarnir eru ekki of margir og leikföngin flæða ekki úr öllum döllum og hillum. Annars er hans uppáhaldsiðja þessa dagana að hlusta á sögur og tónlist í litla geislaspilaranum sem við gáfum honum í jólagjöf og púsla/perla/byggja legó á meðan. Mjög kósí og alveg hægt að gleyma sér í því með honum!

Reyndar er hann að fá nýtt rúm, er að fara úr barnarúmi í fulla stærð, 200x90, og mig langar svo ógurlega að prjóna rúmteppi sem getur fylgt honum út ævina og gefa honum í 5 ára afmælisgjöf í haust. Ég er mjög hrifin af uppskriftinni af Vetrarbylgjuteppinu frá Pickles, sjá mynd hér fyrir neðan, en mig langar að gera það í grænum tónum. Nú er bara að finna a) garn sem er ódýrt en samt fallegt b) tímann til að prjóna rúmteppi í fullri stærð. Trallalalalalalala. 


2 comments:

  1. Þú ert auðvitað fljótari að hekla teppi en prjóna það, og það er til hekl sem líkist þessu prjóni ;)
    Og með garn, þá get ég svo sannarlega mælt með garninu í BYKO (áður Europris) í teppi.

    p.s. þyrftum að taka annan prjónabúðalaugardag saman, mikið sem það var notalegt síðast.

    ReplyDelete
    Replies
    1. Ég sveiflast mjög á milli hvort ég ætli að prjóna eða hekla teppið, það er eiginlega hægt að reikna með að ef það á að vera prjónað í dag verði ég búin að ákveða að hekla það á morgun! Sjáum til. En takk fyrir garnábendinguna, ætla að skoða þetta í BYKO. Og þegar loks kemur að lausum laugardegi stökkvum við á tækifærið og endurtökum þessa huggulegu handavinnustund :)

      Delete