Eins og sjá má var margt brallað í útilegu í Hrunamannahreppi um Verslunarmannahelgina, og í ýmiss konar veðri líka! Við ókum upp að Gullfossi snemma um morgun til að ná á undan ferðamannahópum en þá var svo þungskýjað og hvasst að allar myndirnar líta út fyrir að hafa verið teknar í næturþoku. Það hafði strax birt stuttu seinna þegar við sáum Strokk í allri sinni dýrð (mjög spennandi fyrir barn á fjórða ári) og tókum stutta göngu um Geysissvæðið. Við tókum reyndar líka stutta göngu um Geysisverslunina sem er ótrúlega flott, en þar fann Úlfur þessa rosalega víkingahjálma og sverð. Hann margmátaði góssið fyrir framan spegilinn og hætti ekki fyrr en hann fékk pabba sinn með sér í grínið. Ég tók mynd til sönnunar.
Annað sem stóð upp úr var heimsókn í Slakka. Ég fékk að halda á pínulitlum hvolpi og langaði auðvitað að taka hann með heim... reyndar líka kanínurnar sem voru voðalega sætar og alveg gefins og allt. Svo fórum við líka á lífrænan grænmetismarkað í Laugarási hjá þeim í Engi þar sem við keyptum fullt af grænmeti til að eiga í bílnum sem snarl. Það kláraðist reyndar svo fljótt að við þurftum að koma aftur til að eiga nóg til að taka með heim! Virkilega skemmtilegur staður, Úlfur lék sér á grónu útisvæði allan tímann og ilmurinn af kryddjurtum fyllti loftið í sólskininu. Á leiðinni heim komum við líka við á Sólheimum en höfðum lítinn tíma til að skoða okkur um. Sem var miður því þar er margt skemmtilegt að skoða og svæðið mjög aðlaðandi, við lofuðum sjálfum því við brottför að gera út dagsferð þangað bráðlega.
oh en yndislegt :)
ReplyDelete