Thursday, August 8, 2013

eitt og annað frá síðustu dögum

Ætlaði að blogga með mörgum myndum frá síðustu dögum, enda af nægu myndefni að taka, en ég finn ekki myndavélina og grunar að hún sé enn í bílnum frá því við fjölskyldan fórum í útilegu um Verslunarmannahelgina. Ég ákvað að prófa að sofa í tjaldi þrátt fyrir að komin vel á níunda mánuð meðgöngu og það gekk bara vel! Kannski ekki málið fyrir þær sem eru með bak- eða grindarvandamál en þar sem ég er svo ljónheppin að vera alveg laus við alla meðgöngukvilla var þetta ekkert mál. Því til sönnunar tók Oddur af mér símamynd, nývaknaðri í tjaldinu - rosalega er annars gaman að gista í tjaldi! Ég held ég verði aldrei ein af þeim sem nennir að draga á eftir mér fellihýsi eða svoleiðis. Kannski þegar ég verð gömul?


Úlfur naut útilegunnar líka í botn og fannst þetta allt geðveikt spennandi. Það var nú eiginlega best af öllu. Ég hlakka til að setja inn myndir (þegar ég er búin að finna þær) því við skoðuðum margt skemmtilegt, fórum t.d. í túristaleik við Gullfoss og Geysi, kíktum í dýragarðinn í Slakka og á grænmetismarkaði í Laugarási. Ég heimsótti líka Hespuhúsið við Andakílsárvirkjun þar sem hún Guðrún handlitar garn - hvílík paradís fyrir garnáhugamanneskju! Mæli með heimsókn þangað og læt eina instamynd fylgja með til freistingar. 


Ég keypti að sjálfsögðu smá garn og er byrjuð að prjóna úr því. Deili með ykkur bráðum en satt að segja er þetta smá leyniverkefni og verður því að bíða birtingar enn um sinn. 
Mig langar líka að þakka fyrir heimsóknirnar hingað á bloggið - þeim fer smám saman fjölgandi og mér þykir afskaplega vænt um það. Takk fyrir komuna :) Ég lofa mörgum spennandi færslum framundan!

No comments:

Post a Comment