Þegar ég fór í Hespuhúsið um daginn keypti ég 50 g af dásamlega fallega grænum jurtalituðum léttlopa og ákvað strax að nota hann í klukkuprjónsstroffin á bjölluvettlingunum sem ég var að byrja að prjóna fyrir systurdætur Odds. Þær eru miklar vinkonur mínar og það er svo gaman að gefa þeim prjónaðar gjafir því þær nota þær mikið og halda sérstaklega upp á það sem ég hef gefið þeim - heppna ég! Eldri systirin er að verða 3 ára en sú yngri er rúmlega 1 árs svo ég gerði minnstu og næstminnstu stærðina. Mig langaði að skreyta þá aðeins og saumaði/heklaði þess vegna svona músaandlit en hafði þau aðeins mismunandi til að auðvelda heimilisfólki að þekkja pörin í sundur. Ég hef oft prjónað svona bjölluvettlinga, bæði úr léttlopa og tvöföldum plötulopa, og fylgi alltaf gömlu góðu uppskriftinni úr Lopa 27. Mín reynsla er samt sú að það borgar sig að prjóna stærri stærð en minni því þeir eru jú mjög hlýir og þar af leiðandi mikið notaðir í bleytu og settir á ofn til skiptis þannig að þeir eiga það til að þæfast aðeins og minnka.
Mikið hlakka ég til að gefa stelpunum þessa vettlinga og vona að þeir haldi hita á höndunum í leikskólabrasinu framundan :)
Þegar ég kláraði mýsluvettlingana ákvað ég að prófa að prjóna sæta ungbarnasokka með spíralsniði, hugmyndina og uppskriftina fékk ég hjá henni Unni Evu sem heldur úti fallegu og sniðugu handavinnubloggi. Þessir eru rosalega fljótprjónaðir og ekkert mál! Parið sem sést hér að ofan er úr afganginum af alpakkagarninu sem ég notaði í sætu ungbarnapeysuna fyrr í sumar og það skemmtilegasta er að hönnunin á spíralmunstrinu passar mjög vel við blúndumynstrið í peysunni. Ég á líka helling af kambgarni og ætla að prjóna eitt svona spíralpar úr því líka, ekki verra að eiga marga hlýja sokka á litla haustbarnið mitt.
Annars eru spíralsokkarnir ekki það eina úr smiðju Unnar Evu sem er á prjónunum hjá mér þessa dagana því mig langaði líka svo að prófa uppskriftina hennar að einföldum lopavettlingum. Úlf vantar auðvitað hlýja vettlinga fyrir haustið og þar sem ég er alveg komin með nóg af bjöllum í bili fannst mér upplagt að prófa þessa. Hef líka aldrei áður gert uppskrift með þumaltungu og þá er upplagt að læra það :) Ég prjóna úr léttlopa eins og uppskriftin segir til um (hægt að nálgast hana ókeypis á Ravelry - takk fyrir það!) og svo er ég að hugsa um að skreyta þá kannski aðeins eftir á með afgangnum af fallega græna lopanum, t.d. með því að hekla loftlykkjusnúru og sauma Ú á handarbakið eða eitthvað slíkt. Sjáum til!
Vá hvað mýsluvettlingarnir eru fínir!
ReplyDeleteMýsluvettlingarnir eru æðislega sætir!
ReplyDeleteTakk fyrir!
ReplyDelete