Bókin Ronja ræningjadóttir er kvöldlesturinn fyrir Úlf þessa dagana og sérlegt tilhlökkunarefni á hverju kvöldi því þar er á ferðinni bæði skemmtileg og vel skrifuð saga. Man að ég hélt upp á hana sem barn en hef örugglega ekki lesið hana í rúmlega 15 ár, ofsalega gaman að rifja þetta upp og njóta þess að sjá soninn gapa yfir ævintýrum Ronju og Birkis. Þar að auki er ég alveg dolfallin yfir fallegu teikningunum hennar Ilon Wikland sem myndskreytti flestar bækur Lindgren og nú er ég með það á heilanum að ég verði að eignast svona svarthvíta teikningu úr Ronju á risastóru veggspjaldi. Set það á listann...
Elsku Sigurlaug, ég hafði ekki hugmynd um að bloggið lifði góðu lífi, það hefur ekki fylgt með í öllum þvælingnum eftir að google reader var lagður niður. Það var ekki fyrr en ég las Séð og Heyrt á hárgreiðslustofunni sem ég komst að þessu. En gaman fyrir mig að geta núna flett margar vikur aftur í tímann og lesið og lesið.
ReplyDeleteAnnars kommenta ég við akkúrat þessa færslu því ég fór einu sinni á mjög skemmtilegan fyrirlestur hjá Ilon Wikland þar sem hún sagði einmitt frá því hvernig hún og Astrid Lindgren unnu að útliti persónanna saman. Eina skiptið sem þeim sinnaðist var þegar Ronja var myndskreytt. Ilon var með mjög sterka hugmynd um hvernig Ronja ætti að líta út; breiðleit, dökk á brún og brá og með mikið, strítt og sítt hár, en Astrid sló þessa hugmynd útaf borðinu og fékk að lokum að ráða. Það gladdi því Ilon mjög þegar sagan var kvikmynduð og hún sá hvernig Ronja leit út á hvíta tjaldinu :)
Gaman að heyra frá þér Tinna! Þann fyrirlestur hefði ég viljað sitja líka :)
ReplyDelete