Monday, July 29, 2013

garðurinn gefur (smá)

Fyrr í sumar sagði ég frá mjög svo byrjendalegum tilraunum okkar í matjurtarækt, sem fólust aðallega í því að setja niður nokkrar spíraðar kartöflur og einn pakka af gulrótarfræjum í matjurtahornið hérna i garðinum. Lengi vel vissum við ekki einu sinni hvaða grös væru hin "réttu" og hvað væri illgresi sem ætti að fjarlægja, en við fundum nú út úr því á endanum og nú eru að sprottin nokkuð myndarleg kartöflu- og gulrótargrös. Við ákváðum að prófa að taka upp eitt af kartöflugrösunum og sjá hvað leyndist þar undir. 



Það var nú frekar lítið, eins og myndirnar sýna! Þá er bara að bíða í nokkrar vikur og sjá hvort þetta sé ekki bara allt að koma. Annars vorum við að lesa okkur til í Ætigarðinum - Handbók grasnytjungsins, sem við fengum í útskriftargjöf frá mömmu í tilefni af þessum nýja ræktunaráhuga og það er sannarlega bæði fróðleg og skemmtileg bók, en samkvæmt henni gæti vandamálið legið í því að jarðvegurinn sé illa samsettur og næringarlaus. Við erum þá að minnsta kosti reynslunni ríkari og gerum betur næst. 


Við þvoðum samt að sjálfsögðu litlu uppskeruna og suðum hana með nýuppteknum, búðarkeyptum íslenskum kartöflum. Svo böðuðum við þær með smjöri og steinselju og nutum hvers bita. Dásamlegt!

No comments:

Post a Comment