Feðgarnir á heimilinu drifu sig út í siðustu viku, tóku upp góðan slatta af gulrótum og tíndu auk þess fullt af rifsberjum. Úlfur vildi reyndar ekki kannast við að vera að tína ber heldur þóttist hann vera að mjólka kýr! Sennilega var það fatan sem átti að tína í sem varð innblásturinn að þeim leik. En gulræturnar okkar, þrátt fyrir að vera smáar, voru dásamlega ljúffengar og án efa bestu gulrætur sem ég hef smakkað. Þær hurfu hratt og örugglega ofan í okkur mæðgin meðan Oddur gerði rifsberjahlaup. Hann prófaði að nota minna sykurmagn en sagt var til um í uppskriftinni og bara hrásykur og við fundum engan mun, hvorki á bragði né áferð. Þannig að það er alveg hægt. Og það sem ég er búin að gæða mér á þessu góða rifsberjahlaupi hérna á fyrstu dögum fæðigarorlofsins... namminamm.
Við tókum reyndar upp kartöflurnar okkar um daginn en það var ekkert myndað. Þær náðu fullri stærð en voru ekki sérlega margar - þó í matinn nokkrum sinnum fyrir okkur og eins og gulræturnar alveg fáránlega gómsætar. Við erum mjög ánægð með ræktunartilraunir þessa sumars en nú erum við líka reynslunni ríkari og ætlum að gera breyta aðferðafræðinni aðeins fyrir næsta sumar. T.d. ætlum við að blanda sandi og hrossaskít í jarðveginn í matjurtabeðinu okkar núna í haust og svo ætlum við líka að rækta bara kartöflur í opnum beðum næsta sumar, allt annað í afmörkuðum kössum. Og svo er auðvitað stefnt á fleiri tegundir!
Óska ykkur öllum góðrar uppskeru þetta haustið, hverju svo sem þið hafið sáð :)
Yndislegt! Við tíndum fullt af rifsi og gerðum hlaup og saft. Dæsti aðeins yfir sykurmagninu en þorði ekki að breyta tommu svona í fyrsta sinn sem ég geri þetta. Prufa að minnka að ári.
ReplyDelete