|
Teppið sem er að taka á sig mynd þessa dagana. |
Granny Square dúlluteppi finnast mér ofsalega falleg, hlýleg og heimilisleg. Það er líka ekkert svo mikið mál að búa þau til, ég bjó til fyrsta svoleiðis teppið mitt þegar ég kunni varla neitt að hekla. Ég fann nefnilega
þessar frábæru leiðbeiningar hérna á netinu og fylgdi þeim í einu og öllu. Mesta þolinmæðisverkið er að ganga frá öllum endum og hekla dúllurnar saman en ég mæli með því að harka það af sér því útkoman er svo skemmtileg. Í íslensku heklbókinni
Þóru - heklbók er hellingur af skýrum og góðum leiðbeiningum um dúllu- og teppagerð auk þess sem Youtube hefur svörin við öllum heimsins handavinnuspurningum.
Einn stærsti kosturinn við svona teppi er að tilvalið er að nota garnafgangana sína í dúllurnar, þannig að þau eru sannarlega hagkvæmur og umhverfisvænn kostur. Eitt teppið sem ég bjó til var bara úr afgöngum og það kom æðislega út, þótt litirnir væru ekkert allir alveg í stíl eða garnið jafnþykkt eða neitt. Það er reyndar líka gaman að velja sérstaklega liti í teppið, þ.e. kaupa sérstaklega inn garn, því þá verður útkoman svolítið útreiknanlegri. Það er einmitt það sem ég er að gera núna því á heklunálinni er teppi handa mínu eigin barni sem á að fæðast í lok ágúst. Ég keypti nokkra liti af kambgarni (sem er bæði ódýrt og íslenskt) og það er fáránlega gaman að velja þá saman í hverja dúllu fyrir sig. Svo sé ég engan veginn fram á að klára allt garnið í teppið og þá á ég helling af kambgarnsafgöngum sem ég get notað í peysur, húfur, sokka, vettlinga og jafnvel dúkkuföt. Hlakka til að klára og taka myndir af lokaútkomunni - svo ég tali nú ekki um að taka teppið í notkun :)
|
Fyrsta teppið mitt, gert úr afgöngum sumarið 2010. |
No comments:
Post a Comment