Friday, July 19, 2013

laufapeysa og einkennisbúningar úr toppgarni




 Þar sem ég hef hingað til verið ákaflega ódugleg við að prjóna á sjálfa mig fannst mér kominn tími til að skella loksins í lopapeysu ætlaða til einkanota, enda komin á 35. viku meðgöngu og næstum allar yfirhafnir að springa utan af mér.. ehemm. En sumsé, peysan Laufey úr Lopa 32 varð fyrir valinu. Uppskriftin er eftir Döggu í Litlu Prjónabúðinni og þar fékk ég líka þessar æðislegu, hippalegu tölur. Þetta er rosalega skemmtileg uppskrift og fljótprjónuð, frábær sumarpeysa og fullkomin fyrir risabumbu. Hér fyrir ofan sést líka hvað ég er glöð í peysunni í Viðey í gær! (Takk Þura fyrir aðsenda mynd). 

Ef áhugasamar og glöggar hannyrðakonur eru að velta fyrir sér rúmteppinu sem er bakgrunnur á efstu myndinni þá var það fermingargjöf frá ömmu minni Hildi sem saumaði þetta listaverk sjálf og segist aldrei hafa gert flóknara teppi, og hefur hún þó gert mörg. Eitthvað það aldýrmætasta sem ég á og þvílík heimilisprýði. 




 Núna er á prjónunum önnur peysa eftir hana Döggu (og þriðja á standby, það er reyndar tilviljun en greinilegt að hennar hönnun höfðar mjög til mín). Uppskriftin heitir Eskill og er að finna í Stóru Prjónabókinni. Úlfur á að fá þessa yndislegu peysu og hann hlakkar mikið til, biður reglulega um að máta og það finnst mér ekki skrýtið því Geilsk garnið sem er 50% lambsull og 50% bómull (fæst í Litlu Prjónabúðinni) er svo létt og mjúkt að það er engu lagi líkt. Alveg komið á topp 5 listann yfir eftirlætisgarn! Þegar svo ég klára þessa litlu peysu á Úlf ætla ég að henda í eina stóra á Odd úr sama garni og með svipuðu sniði. Þá geta þeir feðgar verið í einkennisbúning og ég krúttað yfir mig. 

Að lokum vil ég minnast á prjónahetturnar sem sjást á neðstu myndinni. Svona prjónahettur eru algjör snilld og eftir að ég fór að venja mig á að renna þeim alltaf á endana á sokkaprjónunum þegar ég stend upp frá verkinu, og áður en þeir fara í tösku, hef ég ekki misst niður eina einustu lykkju. Það var áður mjög algengt klúður í mínu prjónalífi :) Svona hettur fást í öllum betri prjónabúðum en mínar voru gjöf frá mömmu, hún keypti þær af manni sem smíðar þær sjálfur og heitir Ebenezer Bárðarson.

No comments:

Post a Comment