Mér datt nýlega í hug að nú væri komið að því að spreyta sig á því að semja sínar eigin uppskriftir og reyna um leið að koma í notkun einhverju af öllu flækings- og afgangagarninu sem fyllir garnlagerinn (sá lager fer þó sístækkandi, alveg sama hversu dugleg ég er að vinna á honum. Hér er augljóslega um innkaupaójafnvægi að ræða... ehemm...). Tilvalin leið er að gera dúkkuföt þar sem módelin eru alltaf til staðar, alltaf tilbúin að máta og alveg sama þótt afurðin sé svolítið misheppnuð :) Auk þess eru dúkkur smágerðar og því lítið mál að rekja upp aftur og aftur þar til hinni réttu útkomu er náð. Ég gerði þess vegna einar smekkbuxur úr einbandi á dúkkudrenginn Abeba og þær komu bara nokkuð vel út! Sá samt nokkrar breytingar sem ég myndi gera á uppskriftinni ef ég væri að gera þær aftur. Hugmyndin hjá mér er að fullkomna allar uppskriftir þannig að ég teljist þokkalega hæf í hinni miklu lyst að hanna prjónuð föt - en miðað við þessar byrjendatilraunir er nú eitthvað í það enn.
Það var svo gaman að prjóna dúkkubuxurnar að ég snaraði strax í aðeins breytta útgáfu úr einhverju garni sem ég er löngu búin að týna miðanum af og veit satt að segja ekkert um. Held samt að það sé örugglega 100% akrýl, sem er sjaldgæfur fundur í mínum hirslum. En litirnir eru rosalega fallegir og ég skellti rauðum tölum á mittisstroffið og gerði styttar umferðir (short rows) á rassinum til að gera þær taubleyjuvænni. Hugmyndin er að reyna að nota þær á ungann en ef það reynist ómögulegt þarf ég greinilega að breyta aðeins uppskriftinni. Í versta falli erfir Abeba þær bara - gæti verið verra.
Svakalega fallegar buxur hjá þér :)
ReplyDeleteTakk :)
ReplyDelete